Mikill áhugi er á lífrænni ræktun matjurta
Mikill fjöldi umsókna hefur borist Landbúnaðarháskóla Íslands fyrir komandi skólaár 2020 – 2021. Góð dreifing er á umsóknum á milli námsleiða og sérstaklega er ánægjulegt að sjá mikla aukningu í fjölda umsókna í BS nám í landslagsarkitektúr (áður umhverfisskipulag) og í lífræna ræktun matjurta á starfsmenntanámssigi.
Umsóknir um nám á öðrum brautum skólans eru almennt á svipuðu róli og undanfarin ár. Eins hafa á fjórða tug umsókna um nám á framhaldsstigi borist skólanum. Landbúnaðarháskólinn er lítill skóli með mikla sérstöðu. Við bjóðum hvort tveggja upp á nám á framhaldsskólastigi og á háskólastigi. Aðalstarfsstöð skólans er á Hvanneyri en starfsstöðvar eru einnig á Reykjum í Ölfusi og á Keldnaholti í Reykjavík. Hjarta garðyrkjumenntunar er á Reykjum þar sem starfsmenntanám á sviði garðyrkju fer fram m.a. garðyrkjuframleiðsla sem skiptist í lífræna ræktun matjurta, garð- og skógarplöntur og ylrækt, skrúðgarðyrkja, blómaskreytingar og skógtækni. Á Hvanneyri fer fram nám í búfræði á framhaldsskólastigi og grunn- (BS) og framhaldsnámsbrautir (MS, PHD) í náttúru- og umhverfisfræði, skógfræði, búvísindum, hestafræði, landslagsarkitektúr og ný alþjóðleg meistaranámsbraut um umhverfisbreytingar á norðurslóðum. Á Keldnaholti er aðsetur skipulagsfræði sem er starfsmiðað meistaranám og veitir réttindi til að vera skipulagsfræðingur sem er lögverndað starfsheiti. Landbúnaðarháskólinn býður einnig uppá doktorsnám í skipulagsfræði.
Nemendur hafa gott aðgengi að kennurum og leitast starfsfólk skólans eftir því að skapa nemendum sínum góða vinnuaðstöðu á starfsstöðum skólans. Landbúnaðarháskólinn er einn af opinberu háskólum landsins og er skráningargjöld 75.000 kr fyrir grunnnám háskólabrauta og 35.000 kr fyrir nám á framhaldsskólastigi. Mikil reynsla er af fjarnámi og einnig góð aðstaða til staðarnáms. Á Hvanneyri er í boði að leigja hagkvæmt á nemendagörðum sem bjóða herbergi og íbúðir í mismunandi stærðum.
Hvanneyri er lítið þorp með um 250 íbúum og í klukkustundarakstri frá Reykjavík rétt við Borgarnes. Reykir eru rétt fyrir ofan sundlaugina í Hveragerði í 30 mín. akstursfjarlægð frá Reykjavík og auk námsaðstöðu, skrifstofa og gróðurhúsa er hægt að fá leigð herbergi fyrir nemendur í gamla skólastjórahúsinu. Á Keldnaholti sem er í Grafarvogi er aðstaða til Kennslu, skrifstofur og rannsóknaaðstaða ásamt því að hýsa skipulagsfræðinám og Landgræðsluskólann sem nú er hluti af Gró þekkingarmiðstöð þróunnarsamvinnu, undir hatti UNESCO.
TIl næstu ára er lögð höfuðáhersla á að stórauka rannsóknir, nýsköpun og alþjóðlegt samstarf í því skyni að efla kennslu og innviði skólans. Áhersla verður lögð á sjálfbærni, sem er rauður þráður í gegnum skólann þvert á brautir, en einnig fjölgun vísindamanna við skólann sem og fjölgun nemenda. Gildi skólans er sjálfbærni, hagsæld og framsækni og snertir starfsemi skólans öll 17 sjálfbærnimarkmið sameinuðu þjóðanna. Hlutverk skólans er afar víðfeðmt og gríðalega mikilvægt. Það snertir grundvallarskilyrði lífs okkar á jörðinni og varðar fæðuöryggi, aðgengi að heilnæmu andrúmslofti, hreinu vatni og orku, sem aftur byggir á fjölbreytileika vistkerfa og jafnvægi þeirra í náttúrunni.