Náttúra & Skógur

Endurheimt vistkerfa

Image

Viltu læra leiðir til að sporna gegn hnignun og endurheimta vistkerfi?

Opið fyrir umsóknir fyrir nemendur sem hyggja á nám haustið 2023!


Meistaranám í endurheimt vistkerfa  við LBHÍ er tveggja ára þverfaglegt nám sem veitir alþjóðlega innsýn og þekkingu á sviði vistheimtarfræði og hagnýta þjálfun í aðferðafræði endurheimtar. Nemendur öðlast þekkingu og reynslu af skipulagi, framkvæmd, vöktun, mati og eftirfylgd verkefna á sviði endurheimtar vistkerfa í fjölbreyttu og krefjandi umhverfi þar sem tekið er tillit til bæði vistfræðilegra og félagslegra þátta. Námið veitir breiða innsýn inn í alþjóðlegan heim þessarar sívaxandi og sífellt mikilvægari fræðigreinar. Lögð er áhersla á alþjóðlegt samhengi og ólíkar nálganir við endurheimt út frá staðbundnum þáttum þar sem unnið er á mismunandi vistfræðilegum skala. Námið undirbýr því nemendur fyrir fjölbreytt störf hvar sem er í heiminum þar sem sífelld og vaxandi þörf er fyrir fjölhæfa starfskrafta með djúpan skilning á bæði fræðilegum grunni og hagnýtum leiðum til endurheimtar hnignaðra vistkerfa.

Fyrir hverja er námið?

Ef þú hefur lokið grunnnámi í háskóla sem að einhverju leiti veitir bakgrunn í náttúruvísindum og vistfræði, ert áhugasöm/-samur um að skilja þá ferla og undirliggjandi orsakir sem liggja að baki hnignun vistkerfa og villt öðlast hæfni til að sporna við þessum breytingum og endurheimta vistkerfi, þá er þetta nám fyrir þig. 

Umsóknarfrestur:
Nemendur utan Evrópusambandslanda eða EES landa: 31. janúar.
Íslenskir nemendur og þeir sem búa innan EU eða EES landa: 15. apríl

Aðeins er tekið við innritunum annað hvert ár, nú 2023 og því næst 2025.

Umsækjendur skulu láta ferilskrá, stutta greinargerð um markmið námsins og afrit af prófskírteinum fylgja með. Ekki verður tekið við umsóknum eftir að umsóknarfrestur rennur út.

Nánari upplýsingar veitir Gunnhildur Guðbrandsdóttir deildarfulltrúi framhaldsnáms

Image
Image

Hvers vegna nám í endurheimtarfræðum við LBHÍ?

Ísland er einstakur staður til að leggja stund á þessa fræðigrein. Ósjálfbær landnýting í bland við erfiðar veðurfarsaðstæður og eldvirkni hafa haft mikil áhrif á vistkerfi landsins sem mörg hver eru í hnignuðu ástandi og hafa Íslendingar staðið fyrir skipulögðum aðgerðir á landsvísu sem til að sporna við jarðvegseyðingu og endurheimta vistkerfi í meira en 100 ár. Hér er því til staðar umfangsmikil sérfræðiþekking og hagnýt reynsla á sviði vistheimtar þar sem unnið er á mismunandi skala í ólíkum vistgerðum.

Landbúnaðarháskólinn hefur um langt skeið gegnt stóru hlutverki í vísindarannsóknum, menntun og þjálfun fagfólks innan greinarinnar. LBHÍ hýsir einnig GRÓ-LRT eða Landgræðsluskólann í samvinnu við Landgræðsluna. 

Námið í hnotskurn

Meistaranám í endurheimt vistkerfa er tveggja ára 120 ECTS þvergaflegt nám sem byggt er upp af skipulögðum námskeiðum og 30-60 ECTS rannsóknarverkefni. Námskeiðin eru að hluta til skyldunámskeið en námið býður einnig upp á talsverðan sveigjanleika og tækifæri til sérhæfingar innan fræðigreinarinnar í gegnum fjölbreytt valnámskeið. Námið hefur alþjóðlega skírskotun og er almennt miðað við að kennsla fari fram á ensku. 

Skipting námsins í kjarna- og skyldukúrsa, bundið val, önnur valnámskeið og rannsóknarverkefni
Image

Að loknu námi

Endurheimt vistkerfa er sífellt talin mikilvægari leið á alþjóðavettvangi til að takast á við áskoranir á sviði umhverfismála á borð við eyðimerkurmyndun, tap á líffræðilegri fjölbreytni, ósjálfbæra landnýtingu og loftslagsbreytingar.

Námið mun hjálpa þér að öðlast þá hagnýtu og fræðilegu færni sem nauðsynleg er við forgangsröðun, skipulag, framkvæmd, vöktun og mat á árangri verkefna á sviði endurheimtar í fjölbreyttum vistgerðum og á ólíkum skölum. Þú munt fræðast um og læra aðferðir við vöktun og mat á framvindu og árangri endurheimtar og aðlögun aðgerða sem tekur mið af bæði vistfræðilegum og samfélagslegum þáttum. 

Alþjóðleg áhersla veitir undirbúning fyrir starfsferil hvar sem er í heiminum þar sem vaxandi þörf er á sérfræðingum með djúpan skilning á fræðilegum og hagnýtum hliðum þess að endurheimta vistkerfi og stuðla að náttúrulegri framvindu þeirra. 

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image