Skipulag & Hönnun
Skipulagsfræði

MS gráða – 120 ECTS einingar
Skipulagsfræði er sjálfstæð fræðigrein, en henni tengist fjöldi annarra faggreina svo sem lögfræði, félagsfræði, hagfræði, landfræði, náttúrufræði, sagnfræði, arkitektúr og verkfræði.
Mikilvægt er að skipulagsfræðingar á Íslandi hafi aflað sér þekkingar á náttúrufari, veðurfari, samfélagi, hagkerfi, lagaumhverfi, tækni, menningu, fagurfræði, sögu landsins, byggðarþróun og innri gerð byggðar.
Námsbrautin er með sjálfbæra þróun og sköpun lífvænlegs umhverfis að leiðarljósi. Lögð er áhersla á gagnrýna skipulagshugsun.
Kennt á Keldnaholti í Reykjavík.
Brautarstjóri er Astrid Lelarge
Áherslur í skipulagsfræði

Sjálfstætt rannsóknarverkefni vegur einn fjórða á móti skipulögðum námskeiðum.
Miðað er við að nemendur sem útskrifast af námsbrautinni hafi aflað sér nauðsynlegrar þekkingar til að uppfylla þær menntunarkröfur sem gerðar eru til skipulagsfræðinga af Skipulagsfræðingafélagi Íslands.
Fyrsta önn: Nemar sækja námskeið í skipulagskenningum og aðferðum
Önnur önn: Nemendur vinna við hagnýtt verkefni á vinnustofu og leysa raunverulegt skipulagsverkefni úr umhverfinu.
Þriðja önn: Nemandinn velur sér námskeið með hliðsjón af viðfangsefni meistaraverkefnis.
Fjórða önn: Á lokaönninni er megináherslan á ritun meistararitgerðar. Nemendur eru hvattir til að vinna sjálfstætt undir handleiðslu leiðbeinanda.
Að loknu námi í skipulagsfræði

Vaxandi þörf er fyrir menntaða skipulagsfræðinga á Íslandi og er námið sniðið að íslenskum þörfum en fylgir engu að síður nýjustu stefnum í skipulagskenningum og fræðigreininni. Nemendur eru þjálfaðir í að beita meigindlegum og eigindlegum rannsóknaraðferðum, rýmishönnun og hagnýtri nálgun við lausn skipulagsverkefna með samvinnu við ýmsa hagsmunaaðila.
Að loknu námi eiga nemar að geta fengist við ýmisleg skipulagsverkefni t.d. unnið sjálfstætt að ráðgjöf og aðstoðað opinbera aðila við ákvarðanir í skipulagsmálum og metið líklegar afleiðingar þeirra.