Votlendissetur

Votlendissetur

Image

Votlendi setur mikinn svip á íslenska náttúru og myndar samofið net frá fjörum og leirum upp um ósa, ár og vötn til mýra og flóa.

Votlendi er mikilvægt búsvæði fugla, smádýra og plantna, og fjölmargar tegundir byggja tilvist sína á því. Margvísleg ferli eiga sér stað í votlendi, svo sem vatnsmiðlun, mómyndun og uppsöfnun sets. Sökum þessara ferla hefur óraskað votlendi mikið gildi sem samofin eining í landinu, sérstaklega hvað varðar vatns- og efnabúskap stærri landslagseininga.

Á síðari hluta þessarar aldar hefur votlendi hér á landi tekið miklum breytingum vegna framræslu og ræktunar mýra. Framræsla mýra hefur verið búskap í mýrlendum sveitum lyftistöng og styrkt stoðir landbúnaðarframleiðslu í landinu. Nú er svo komið að á láglendi hafa mýrar víðast hvar verið ræstar fram og lítið er eftir af ósnortnu votlendi.

Ljóst er að losun gróðurhúsalofttegunda úr framræstu mýrlendi er ekki einungis stærsti landnýtingarlosunarþátturinn heldur einnig sambærilegur á við aðra stóra losunarþætti samfélagsins s.s. orkubrennslu. Rannsóknir sýna að endurheimt votlendis færir gróðurhúsalofttegundabúskap mýra í fyrra horf og því er ljóst að með slíkum aðgerðum má draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Endurheimt votlendis hefur nú verið reynd í öllum landshlutum og bæði hefur vel tekist til í nánast öllum tilvikum og aðgerðirnar til þess að gera ódýrar (Votlendisnefnd, 2006). Fyrir liggja því bæði rannsóknir á og reynsla við endurheimt votlendis og því fátt í vegi fyrir því að nýta þessa ódýru leið við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið.

Frekari upplýsingar gefa Hlynur Óskarsson, hlynur@lbhi.is, og Ragnhildur Helga Jónsdóttir, ragnhildurhj@lbhi.is.

Horft yfir Andakíl í Borgarfirði. Mynd: BÞ.
Andakíll í Borgarfirði
logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image