Kýrnar á Hvanneyri. Mynd LbhÍ

Hvanneyrarbúið byggir upp til framtíðar

Aðalfundur Hvanneyrarbúsins ehf. 2020 var haldinn þann 27. maí sl. Formaður félagsins er Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands. Aðrir stjórnarmenn eru Baldur Helgi Benjamínsson, búfjárerfðafræðingur og bóndi á Ytri-Tjörnum í Eyjafirði og Pétur Diðriksson, bóndi á Helgavatni í Þverárhlíð. Bústjóri er Egill Gunnarsson og fjósameistari er Hafþór Finnbogason. Fundargerðir stjórnarfunda, ársreikningar og skýrslur stjórnar eru birtar á heimasíðu Landbúnaðarháskóla Íslands, www.lbhi.is.

Fyrirmyndar afurðasemi og mjólkurgæði

Tilgangur félagsins er að reka á hagkvæman hátt kúabú á Hvanneyri í þágu kennslu og rannsóknastarfs Landbúnaðarháskóla Íslands. Innlögð mjólk árið 2019 var 558.041 lítrar og er það met í sögu búsins. Fituhlutfall var 3,99% og próteinhlutfall 3,26%, margfeldismeðaltal líftölu var 13 og mfm frumutölu 117. Hlutfall fitu og próteins stóð í stað frá fyrra ári, og sama má segja um líftölu og frumutölu. Árskýr á búinu voru 73,8 sem að meðaltali skiluðu 8.262 kg mjólkur, með 4,1% fitu og 3,34% próteini. Búið er hið 8. afurðahæsta á landinu á almanaksárinu 2019, mælt í kg mjólkur/árskú. Gæði og magn afurða er því til stakrar fyrirmyndar. Tún, engjar og grænfóðurakrar eru um 170 ha.

Rekstur samkvæmt áætlun

Rekstur félagsins gekk með ágætum á árinu 2019 og var hann í samræmi við þær áætlanir sem stjórnendur félagsins lögðu upp með. Heildartekjur félagsins voru 96,8 m.kr., en gjöld fyrir fjármagnsliði voru 86,5 m.kr. Hagnaður félagsins á árinu eftir fjármagnsliði var 9,3 kr. 

 

Stjórn leggur til að hagnaður félagsins leggist við eigið fé þess. Áætlun yfirstandandi árs gerir ráð fyrir tekjuafgangi þannig að halda megi áfram að byggja upp eigið fé félagsins, búa í haginn fyrir nauðsynlega endurnýjun á tækjum, búnaði og ræktun, ásamt því að efla fjárhagslegan styrk Hvanneyrarbúsins. Eigið fé félagsins jókst um tæpar 10 milljónir kr á árinu og nemur það nú 36,1. m.kr. Eins og sjá má á myndunum hér að neðan, hefur afkoma félagsins verið góð undanfarin ár og eigið fé vaxið ár frá ári.

Helstu fjárfestingar félagsins á liðnu ári voru afrúllari framan á fjósvél til gjafa, notaður sturtuvagn ásamt lengingu, holdstigunarmyndavél, notuð varnarefnadæla, beiðslisgreinar, sjálfvirkur fóðursópur, en síðast en ekki síst var skipt um sköfukerfi í helmingnum af fjósinu og fyrirhugað er að klára að skipta út seinni helmingnum á næstunni. Rekstraröryggi nýja sköfukerfisins er stórum meira en þess gamla og orkunotkunin brot af því sem áður var. Ekki var heldur slegið slöku við í ræktun og fjárfest dyggilega þar eins og síðustu ár í endurræktun túna og viðhaldi framræslu. Fóðursópurinn var settur upp haustið 2020 og virkar eins og til er ætlast.

Uppbygging á tilraunaaðstöðu

Stjórn leggur áfram áherslu á uppbyggingu á aðstöðu og búnaði Hvanneyrarbúsins til að viðhalda og bæta aðstöðu til rannsókna og tilrauna. Tilboða hefur verið leitað til endurnýjunar á mjaltabúnaði og mjólkurtanki. Sótt var um styrk fyrir kjarnfóðurbás sem mælir metanlosun. Loks hafa sérfræðingar Landbúnaðarháskólans unnið að tillögum um að koma upp góðri og viðunandi rannsóknaraðstöðu fyrir einstaklingsfóðrunar-, fóðurverkunar- umhverfis- og velferðartilraunir sem tengjast nautgriparækt. Skráning vinnutíma starfsmanna Hvanneyrarbúsins er unnin á nokkuð nákvæman hátt og stefnt er að því að vinna upp úr henni gögn um vinnuframlag og launakostnað í mjólkurframleiðslu en einu fyrirliggjandi gögn nautgriparæktarinnar þar að lútandi eru meira en 20 ára gömul. Skráningin gefur enn fremur möguleika á því að meta með nokkurri nákvæmni rekstrarhagkvæmni nýframkvæmda og kaupa á búnaði. Landbúnaðarháskólinn er að efla aðstöðu sína í jarðrækt og má ætla að rannsóknir munu aukast á næstu misserum á því sviði. Hafa skólanum borist höfðinglegar gjafir sem nýtast til uppbyggingar á jarðræktarrannsóknum. Þá verður hugað að aukinni sjálfbærni og samstarfsverkefnum við skólann á því sviði.

Sameining Hvanneyrarbúsins og Hestbúsins?

Á síðasta aðalfundi félagsins voru kostir og gallar þess að reka Hvanneyrarbúið og Hestbúið í sama félagi ræddir. Ýmis tækifæri felast í því fyrir skólann að auka samrekstur búanna. Búin hafa áfram verið rekin í sitt hvoru lagi en aukin áhersla lögð á samstarf og samlegðaráhrif milli þeirra. Málið er áfram til umræðu í stjórn Hvanneyrarbúsins.

Breyting á starfsmannahaldi

Nýr fjósameistari, Karl Vernharð Þorleifsson, var ráðinn til starfa á vordögum og er hann boðinn velkominn til Hvanneyrarbúsins. Stjórn Hvanneyrarbúsins ehf. þakkar starfsmönnum búsins fyrir samstarfið á árinu og óskar þeim til hamingju með góðan árangur í búrekstrinum. Starfsmönnum Landbúnaðarháskólans er einnig þakkað fyrir ánægjuleg samskipti á árinu. Sérstakar þakkir eru færðar til fráfarandi fjósameistara Hafþórs Finnbogasonar sem lét af störfum 1. júní sl. eftir 5 ára farsælt starf.

--

Greinin birtist í Bændablaðinu 21. tölublað 2020 5. nóvember 2020

--

Nánar um Hvanneyrarbúið

Hvanneyrarbúið á Facebook

--

tengdar fréttir 
Bokashi, hvað er það?? Ný aðferð til endurnýtingar á lífrænum úrgangi
Aðalfundur Hvanneyrarbúsins
 

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image