Á Hvanneyri hefur nýlega verið settur upp hauggerjunarhaugur í rannsóknarskyni.

Bokashi, hvað er það?? Ný aðferð til endurnýtingar á lífrænum úrgangi

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi- hjá bændum, fyrirtækjum og sveitarfélögum. Mikill samfélagslegur kostnaður er fólgin í söfnun, flutning og meðhöndlun á þessum úrgangi og að jafnaði lítill ávinningur. Gerjun á lífrænum úrgangi gæti verið heppileg og hagkvæm leið til að nýta næringarefnin og orkuna í því til jarðvegsbóta eða annara nytja.

Bokashi aðferðin, sem nefna má hauggerjun, er einfaldari og ódýrari en aðrar meðhöndlunarleiðir fyrir lífrænan úrgang. Hauggerjun krefst ekki sérhæfðs tækjabúnaðar, þarfnast lítillar vinnu og væri hægt að setja upp víðast hvar á landinu. Ferlið tekur um 6 vikur, er lyktarlaust og miðar m.a. að því að eyða skaðlegum örverum og illgresisfræi úr úrganginum og draga úr ásókn meindýra. Úr verður úrvals jarðvegsbætir og sannkallaður veislumatur fyrir jarðvegslífið. Næringarefni og kolefni varðveitast betur miðað við aðrar aðferðir og því verður endurnýting á lífrænum verðmætum betri en ella. Bokashi aðferðin er víða að ryðja sér til rúms á Vesturlöndum, bæði í smáum stíl inni á heimilum, en einnig er verið að útfæra hana á stærri skala á bóndabýlum sem og á vegum fyrirtækja og sveitarfélaga. Bokashi aðferðin gæti hentað íslenskum aðstæðum mjög vel enda fer ferlið fram undir plasti, varið fyrir veðri og vindum, og má geyma efnið þar þangað til það á að notast.

Í loftfyrrðri gerjun varðveitist nærri allt kolefni og nitur í haugnum, en í loftaðri jarðgerð tapast um helmingur kolefnisins sem koltvísýringur og metan, en um 10-20% nitursins rýkur sem nituroxið. Í gerjunarferlinu er orkunotkun jafnframt minni en í venjulegri moltugerð. Aðferðin felst í að gerja lífræna massann í 6-8 vikur. Afurðina má síðan nýta til áburðargjafar og jarðvegsbóta, eða nýta til annarar vinnslu, t.d. svepparæktar. Þessi aðferð gæti nýst býlum og byggðarkjörnum og orðið ódýrari lausn við endurnýtingu lífræns úrgangs, einkum þar sem flutningsleiðir eru langar í næstu móttökustöð.

Á Hvanneyri hefur nýlega verið settur upp hauggerjunarhaugur í rannsóknarskyni. Haugurinn var settur upp á sléttu undirlagi úr möl í malarnámu við Hvanneyrarbúið. Haugurinn er um 12 metrar að lengd, 4 metrar að breidd og um 60 sm að hæð. Rúmmál hans mælist því um 25 m3 og þyngd um 16 tonn. Verkefni er unnið með styrk úr Framleiðnisjóði ásamt framlagi RML, Lbhí og Hvanneyrarbúsins. Markmið verkefnisins er að þróa Bokashi aðferðina til að gerja lífrænan úrgang í stórum stíl við íslenskar aðstæður, sem yrði liður í hagkvæmri og umhverfisvænni úrvinnslu og endurnýtingu. Einnig er það markmið verkefnisins að kanna nýtingarmöguleika gerjaðs lífræns úrgangsmassa til áburðar og jarðvegsbóta og sem hráefni til áframhaldandi vinnslu. Ávinningur verkefnisins getur orðið hagkvæmari endurnýting á lífrænum áburði fyrir bændur, sveitarfélög og fyrirtæki í sorphirðu. Ef vel tekst til gæti áframhaldandi þróunarvinna leitt til sparnaðar við söfnun, flutning og vinnslu lífræns úrgangs og bætta nýtingu áburðarefna í landbúnaði. Hauggerjunarhaugurinn sem settur var upp samanstendur af kúamykju, nýslegnu grasi og heyfyrningum. Í hauginn voru sett íblöndunarefni – örverublanda, skeljakalk og leir - til að varðveita næringarefni og til að halda sýrustigi innan æskilegra marka. Örverublöndunni var hellt yfir úrgangsmassann, massinn þjappaður til að ná sem mestu af lofti úr efninu og að lokum var sterkur dúkur strengdur yfir til að loka fyrir súrefni. Við hauggerjun má annars nota allan lífrænan úrgang sem fyrir hendi er, s.s. garðaúrgang, matarleifar, uppskeruleyfar, hrat ofl. Að gerjunarferlinu loknu mun fara fram prófun á áburðareiginleikum afurðarinnar og tillögur gerðar um frekari prófanir og næstu skref.

Geymsla á lífrænum áburði er dýr og ljóst að sumstaðar er geymslurými minna en reglur gera ráð fyrir. Þróun á þessari aðferð gæti því dregið úr tapi áburðarefna við geymslu á lífrænum búfjáráburði og aukið hagkvæmni í nýtingu hans. Þannig getur hauggerjun t.d. brúað bilið á milli þess er geymslur fyllast og þar til að hagstæðar aðstæður skapast til dreifingar. Þetta dregur þar með úr óhagkvæmni þess að dreifa lífrænum áburði í tíð þegar mikið af næringarefnum skolast burt og nýtast ekki nytjagróðri. Við kostnaðargreiningu kemur í ljós að kostnaður vegna gerjunar með Bokashi er töluvert minni en við aðrar meðhöndlunaraðferðir. Þetta getur skýrst meðal annars af því að mun lægri stofnkostnaður er við að koma upp Bokashi aðferð og aðferðin er frekar einföld. Rekstrarkostnaður er minni og getur það skýrst af því að færra starfsfólk og vélar þarf til þess að vinna úrganginn. Ennfremur þarf ekki húsnæði enda getur vinnslan verið undir berum himni.

Hér eru myndir frá uppsetningu haugsins.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image