Nemendur kynna tillögur sínar um nýja framtíðarsýn fyrir Borgarnes

Uppbygging án vaxtar - Ný framtíðarsýn fyrir Borgarnes - Verkefni nemenda í skipulagsfræði

Landbúnaðarháskóli Íslands stóð fyrir viðburði sem var opinn fyrir alla í tengslum við Námskeiðið „Hagnýtt og heildstætt skipulag“ í húsarkynnum Borgarbyggðar síðastliðinn mánudag. Nemendur námskeiðsins: Díana Berglind Valþórsdóttir, Elísabet Bjarnadóttir og Þóra Margrét Júlíusdóttir kynntu samstarfsverkefni sitt, en að þessu sinni var viðfangsefnið ný framtíðarsýn fyrir Borgarnes.

Nemendurnir fá í gegnum þetta námskeið færi á að spreyta sig sem hönnuðir á skipulagi , dáldið á sama hátt og þegar tekið er þátt í skipulagssamkeppnum. Þetta er ólíkt daglegu amstri skipulagssviða sveitarfélagana að því leiti að nemendum er lyft á efra sjónarhól þar sem ögranir samtímans standa í röðum – og nemendurnir læra á ýmis tól sem eru fyrir hendi til að fá yfirsýn, tileinka sér gagnrýna hugsun og þeir þjálfast í að setja fram nýjar hugmyndir. Hér er pláss til að hugsa út fyrir kassann, að hugsa óháð, og jafnvel leggja fram ögrandi spurningar varðandi forsendur sem virðast hafa legið í kortunum lengi, en væri jafnvel vert að endurskoða í ljósi þess nýjasta í fræðunum, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Aðalatriðið hér var kanna hvernig framtíðarsýn Borgarness gæti sem best samrýmst markmiðum sjálfbærrar þróunar, en áhersla Borgarness á heilsueflingu er einmitt á þessum nótum. Þegar litið er á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í þessum efnum sjáum við vel að nánast allt sem hægt er að gera í til að sporna við loftslagsbreytingum og varðveislu og framþróun vistkerfa lýtur að hinu byggða umhverfi. Höfuðatriði í sjálfbærnihugsun er að byrja ekki á neinu nýju sem gæti fært hlutina til verri vegar, en kappkostað frekar að endurnýta og bæta þá innviði sem til eru en ekki virka nægilega vel sem stendur.

„Uppbygging án vaxtar“ heitir tillaga nemendanna sem leggja til að þróa miðbæ fyrir fjölskrúðugt mannlíf  á flæmum sem nú er lögð undir uppundir 500 bílastæði, bensínstöðvar og sjoppur miðsvæðis í bænum. Form bygginganna svipar til byggðamynsturs gamla hluta Borgarness sem er þekkt fyrir einstakan sjarma. Nemendurnir sýndu teikningar, kort og módel með nýrri byggð á tveimur til þremur hæðum sem gæti rúmað 6.700m2 verslunar og þjónustuhúsnæði, en ennfremur 34.600m2 fyrir íbúðarhúsnæði sem gæti rúmað u.þ.b. 1.470 manns. Hér gæfist kostur á minni íbúðum, sem henta betur eldri kynslóðinni sem kæmust þá úr íþyngjandi einbýli sem hentar betur barnafjölskyldum. Einnig væri þetta góður kostur fyrir unga fólkið sem ekki hefur efni á sérbýli, eins og er ráðandi íbúðagerð í Borgarnesi í dag. Starfsemi sem er opin fyrir almenning á fyrstu hæð gæti lokkað fólk til að fara ferða sinna fótgangandi með tilheyrandi heilsueflingu og um leið ljáð útirýmunum líf. Hér yrði líka til sýnis og sölu allt það besta sem Borgarnes og Borgarbyggð hefði upp á að bjóða. Nýji miðbærinn myndi þannig lokka fólk til að staldra við og njóta Borgarness á annan hátt en er í dag. Verkefni nemendanna sýnir hvernig þjóðveginum yrði þá breytt í líflega bæjargötu með hægri umferð, hjóla- og göngustígum á leið í gegnum byggðina með gróðri og blómlegri þjónustu, mörkuðum og torgum. Þetta er leið sem farin hefur verið í bæjum í Noregi með góðum árangri, en reynslan sýnir að þegar þjóðvegur flyst út úr bæjum flyst þungamiðja verslunar út úr, og byggðin dreifist með tilheyrandi áskorunum og óþarfa bílakeyrslu. Hver veit hvort Borgarbyggð setji þróun miðbæjarins í forgang áður en ráðist verður í dýrar nýjar innviðaframkvæmdir sem stækka bæinn að óþörfu?

Skipulagsfræðingar framtíðarinnar fá í gegnum námið í LbhÍ menntun út frá ólíkum flötum skipulagsfræðinnar og í kjölfarið störf sem bera í sér mikil áhrif fyrir næstu kynslóðir, með tilheyrandi ábyrgð. Þetta er fremur flókið og margbreytilegt fag, en mjög gefandi fyrir alla sem hafa áhuga á því að geta haft áhrif á hvernig samfélag við viljum búa til. Það er gríðarlega mikilvægt að efla þessa menntun hér á landi þannig að ráðamenn hafi aðgang að öflugu fagfólki sem getur gefið góð ráð um hvernig forðast skuli dýrkeypt mistök, og sem getur komið með góðar hugmyndir um hvernig gera mætti betur til framtíðar. Nánar um meistaranám í skipulagsfræði.

Tillögurnar má sjá í glugga á neðri hæð Digranesgötu 2 í Borgarnesi (Arionbankahús) Allir velkomnir að skoða.

Fleiri myndir á Facebook síðu Skipulagsfræði

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframsleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image