Út eru komin tvö rit í ritröð LbhÍ annarsvegar Stofnmat fyrir íslenska rjúpnastofninn eftir Erlu Sturludóttur lektor og hinsvegar Nytjaplöntur á Íslandi 2021. Yrki, sem mælt er með fyrir landbúnað, gras- og golfflatir, landgræðslu og garðrækt í ritstjórn Þórodds Sveinssonar deildarforseta við Ræktun og fæðu. Heildarlista rItraðar LbhÍ má nálgast hér.
Rit LbhÍ nr 140 Nytjaplöntur á Íslandi 2021.
Yrki, sem mælt er með fyrir landbúnað, gras- og golfflatir, landgræðslu og garðrækt e.Varieties recommended for Icelandic agriculture, land reclamation, turfgrasses and greens. Ritstjóri er Þóroddur Sveinsson.
Á nytjaplöntulistanum 2021 hefur verið bætt við nokkrum yrkjum frá listanum 2020 eða; 1 í sumarrýgresi, 1 í byggi til þroska, 1 í höfrum til þroska, 1 í hvítkáli og 1 í blómkáli. Þá hefur verið bætt við nýjum nytjajurtaflokki sem er iðnaðarjurtir þar sem skráð eru 5 hampyrki sem hafa verið í prófun hér á landi. Á listanum eru yfirleitt yrki í hverri tegund sem hafa reynst best í skipulögðum tilraunum hér á landi. Þetta á sérstaklega við fjölær fóðurgrös og kornyrki til þroska. Grænfóðuryrki á lista hafa verið prófuð hér á landi en ekki endilega eins mikið eða skipulega eins og korn- og túngrasayrkin. Einnig eru á listanum yrki í sumum tegundum með góða reynslusögu en hafa ekki verið prófuð í skipulögðum tilraunum. Ritið má nálgast í heild sinni hér.
Rit LbhÍ nr 141 Stofnmat fyrir íslenska rjúpnastofninn eftir Erlu Sturludóttur og var unnið fyrir Náttúrufræðistofnun Íslands.
Vöktun veiðistofna er mikilvæg til að tryggja sjálfbæra nýtingu þeirra. Mikilvægt er að þeir sem bera ábyrgð á nýtingu dýrastofna hafi upplýsingar um stofnstærð og afföll. Rjúpa er ein vinsælasta veiðibráð á Íslandi en rjúpnastofninum hefur hnignað frá því sem var á fyrri hluta 20. aldar. Því er mikilvægt að vel sé fylgst með stofnþróun rjúpu. Í þessu verkefni var skoðuð aðferð til að meta stofnstærð rjúpunnar fyrir allt landið með stofnlíkani sem byggir á veiðitölum og aldursgreiningum úr afla (e. population reconstrunction model). Með slíkri aðferð er hægt að meta samtímis stofnstærð og afföll fyrir mismunandi aldurshópa. Ritið má nálgast í heild sinni hér.