Út er komið Rit LbhÍ nr 146 í ritröðinni og fjallar um vinningstillögu um uppbyggingu á lóð Sævarhöfða 31 Reykjavík

Garðyrkja og matvælaframleiðsla á Íslandi: saga, plöntutegundir, gróðurhús og innviðir

Út er komin skýrsla nr 146 í ritröð LbhÍ. Nefnist hún Garðyrkja og matvælaframleiðsla á Íslandi: saga, plöntutegundir, gróðurhús og innviðir. Ritið er eftir þær Steinunni Garðarsdóttur sérfræðing, Kristínu Pétursdóttur brautarstjóra Landslagsarkitektúrs (í leyfi) og Samaneh Sadat Nickayin lektor.

Höfundateymi ritsins var hluti af sigurteymi í samkeppninni „C40 Reinventing Cities Iceland 2021“ um uppbyggingu á lóð Sævarhöfða 31 við Grafarvog. Tillaga þeirra nefnist Vaxtarhús og var unnin af þverfaglegu teymi, Circular district sem samanstóð af aðilum frá VSÓ ráðgjöf, Reiulf Ramstad Arkitekter, M Studio Reykjavík, Íslenskar Fasteignir og EIK Fasteignafélag ásamt skýrsluhöfundum frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Sjá nánar í frétt: Sigurtillaga í hönnunarsamkeppni.

Sjálfbær borgarhönnun og borgarlandbúnaður
Uppbyggingartillaga Vaxtarhúss byggir á kröfu um sjálfbæra borgarhönnun með því að koma til móts við tíu umhverfisáskoranir sem lagt er upp með í keppninni. Eitt af því var krafa um að efla matvælaöryggi og lækka vistpor aðfluttra matvæla. Því er svarað með einskonar matvælaframleiðslu-mekka Reykjavíkurborgar þar sem fólk getur upplifað heim borgarlandbúnaðar og notið hans við ræktun, þekkingaröflun, á veitingastöðum svæðisins eða í annarri heimsókn. Vaxtarhús verður miðstöð fyrir nýsköpun á sviði matvælaframleiðslu ásamt því að efla þekkingu og vera leiðandi í þróun sjálfbærrar borgarþróunar og hringrásarkerfis. Það á við um alla keðjuna, allt frá hugmyndavinnu, þróunnar í framleiðslu, sölu og veitingaþjónustu og dreifingu matvæla. Pikkolo dreifikerfi fyrir netverslun tengir framleiðendur við dreifistöð sem staðsett verður á svæðinu. Að lokum er hugað að meðhöndlun úrgangs og moltugerð þannig að hringurinn geti hafist að nýju.

Ræktun við íslenskar aðstæður
Í ritinu, sem var hluti af framlagi LbhÍ til Vaxtarhúss verkefnisins eru tækifæri í plöntunotkun og matvælaframleiðslu í þéttbýli á Íslandi skoðuð. Varpað er ljósi á nýtingu á ætum plöntum sem má rækta utandyra og innandyra, í lóðréttri ræktun eða þakgörðum með því að nýta þær byggingar og auðlindir sem eru til staðar eins og heitt vatn, lífrænn úrgangur og sementssílóin sem verða endurbyggð.

Skýrslunni fylgir listi þar sem farið er yfir helstu tegundir ætra plantna sem ýmist eru í ræktun eða möguleikar eru á að rækta hér á landi og gerð grein fyrir ræktunarskilyrðum og tækifærum til nýtingar á viðkomandi tegundum. Hugmyndir tillögunnar eru með þessu settar fram í raunverulegu samhengi og taka mið af ræktun við íslenskar aðstæður.

Ritið er á ensku og má finna hér í heild sinni.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image