Margrét Þóra Sæmundsdóttir ver meistararitgerð sína í skipulagsfræði: „Búsetuóskir og val á ferðamáta – Ákvörðun um flutning til þéttbýlisstaða í jaðri vinnusóknarsvæðis höfuðborgarsvæðisins: Tilvikið Selfoss“ við deild Skipulags og hönnunar við Landbúnaðarháskóla Íslands.
Leiðbeinendur Margrétar Þóru eru Dr. Harpa Stefánsdóttir, prófessor í skipulagsfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands og Erna Bára Hreinsdóttir, skipulagsfræðingur og forstöðumaður skipulagsdeildar hjá Vegagerðinni.
Meistaravörnin fer fram mánudaginn 26. maí 2025 kl. 11:00 í Sauðafelli, 3. hæð á Keldnaholti í Reykjavík og á Teams og er opin öllum. Hlekkur á vörnina kemur inn hér þegar nær dregur.
Ágrip:
Ritgerðin fjallar um hvernig búsetuóskir og val á ferðamáta hafa áhrif á ákvörðun fólks um að flytja frá höfuðborgarsvæðinu til nærliggjandi þéttbýlisstaða innan vinnusóknarsvæðis þess. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvaða búsetuóskir skipta mestu máli við ákvörðun um flutning og hvernig val á ferðamáta til og frá vinnu hefur áhrif á þá ákvörðun. Byggt var á fræðilegum viðmiðum úr rannsóknum í Norður-Evrópu um efnahagslega, félagslega og samgöngutengda þætti, auk búsetugæða. Þessi viðmið voru sett fram til að kanna hvort þau ættu við í íslensku samhengi með Selfoss sem tilvik rannsóknarinnar. Leitast var við að svara því að hvaða marki búsetuóskir hafa áhrif á flutninga til þéttbýlisstaða í jaðri vinnusóknarsvæðis höfuðborgarsvæðisins á Íslandi og hvernig þær tengjast ferðamöguleikum til og frá vinnu. Spurningakönnun var lögð fyrir nýaðflutta íbúa Selfoss, sem flutt höfðu frá höfuðborgarsvæðinu á árunum 2020 til 2024, auk þess sem tekin voru viðtöl við valda íbúa til að fá dýpri innsýn í viðhorf þeirra. Niðurstöður sýna að búsetuóskir um sérbýli, einkagarð og rólegt og fjölskylduvænt umhverfi voru meginástæður flutnings. Margir íbúar voru tilbúnir til að sætta sig við lengri ferðatíma á einkabíl til vinnu á höfuðborgarsvæðinu til að uppfylla þessar óskir og einfalda daglegt líf fjölskyldunnar. Almenningssamgöngur voru almennt ekki taldar raunhæfur valkostur til vinnuferða vegna takmarkaðs aðgengis, langs ferðatíma og lítillar tíðni. Rannsóknin varpar ljósi á hvernig mismunandi persónulegar óskir og kerfislægir þættir móta búsetuóskir og val á ferðamáta íbúa á jaðri vinnusóknarsvæðisins. Hún undirstrikar mikilvægi þess að stefnumótun í skipulags- og samgöngumálum á Íslandi taki mið af fjölbreyttum búsetuóskum og ólíkum þörfum íbúa, ef ætlunin er að draga úr útþenslu byggðar, álagi á vegakerfi og stuðla að sjálfbærri þróun byggðar með vistvænum ferðamátum.