Vörn við umhverfisdeild LbhÍ fimmtudaginn 30. janúar

Fimmtudaginn 30. janúar ver Brita Berglund meistararitgerð sína: Cultivating communication: Participatory approaches in land restoration in Iceland. Vörnin fer fram kl. 14.00 í húsakynnum skólans á Keldnaholti í Reykjavík. Í lok athafnar verður boðið upp á kaffí. Erindið verður flutt á ensku. Íslenskur titill verkefnisins er: Að (g)ræða saman: Þátttökuaðferðir í landgræðslu á Íslandi. Aðalleiðbeinandi er Ása L. Aradóttir, LbhÍ, og meðleiðbeinandi Lars Hallgren, SLU. Prófdómari er Elin Ångman, SLU.

Þátttökuaðferðir verða sífellt algengari í umhverfisstjórnun. Í verkefninu var skoðað hvernig þátttökuhugtakið hefur verið túlkað innan Landgræðslu ríkisins og hvaða áhrif sú túlkun hefur haft á útfærslu þátttöku í tveimur landgræðsluverkefnum: Bændur græða landið (BGL) og Hekluskógum. Líka var skoðað hvernig héraðsfulltúar Landgræðslunnar upplifðu og útfærðu samskipti við aðra hagsmunaaðila. Helstu aðferðir voru hálfstýrð viðtöl við starfsmenn Landgræðslunnar, bændur í BGL og aðila í samráðsnefnd um Hekluskóga, sem og þátttökuathuganir við heimsóknir héraðsfulltrúa til BGL-bænda.

Niðurstöðurnar leiddu í ljós að starfsmenn Landgræðslunnar lögðu megináherslu á hinn áþreifanlega árangur, eða afurðina, af þátttökuverkefnunum. Árangurinn uppfyllti væntingar starfsmanna Landgræðslunnar og að mörgu leyti væntingar annara viðmælenda líka. Afleiðingar þessarar áherslu voru hins vegar líka minni áhersla á þætti sem tengdust þátttökuferlunum sjálfum, til dæmis að viðhalda samskiptum, tryggja áhrif annara hagsmunaaðila og að huga að væntingum þeirra til þessara ferla. Þetta leiddi til óánægju hjá sumum hinna aðilanna. Einnig virtist lítið hafa verið gert til að laga stofnunina sjálfa að þátttökunálgunum. Samskiptaaðferðir héraðsfulltrúana stuðluðu að samvinnu og bættum tengslum milli Landgræðslunnar og bænda. Þessi tengsl gerðu þeim kleift að styðja við landgræðslustörf bænda, sem var mikilvægur liður í að uppfylla meginmarkmið Landgræðslunnar. Tímaskortur og gróðureftirlitsskylda Landgræðslunnar gerðu störf héraðsfulltrúana hinns vegar erfið og vann gegn samvinnu. Þeir fundu líka fyrir takmörkuðum skilningi og viðurkenningu innan stofnunarinnar á þátttökunálgunum og samskiptum sem mikilvægum starfsþætti. Tilfinningaleg hlið samskiptana gat líka verið erfitt.

Af niðurstöðunum má álykta að afurðaráherslur Landgræðslunnar hafi skilað miklum árangri, en að þær hafi hugsanlega takmarkað ávinninginn af þátttökuaðferðunum. Mögulegar leiðir til þess að þróa þátttökunálganir og samvinnu væri að gefa þátttökuferlunum sjálfum meiri gaum, tryggja nægilegt fjármagn til samskipta og auka þekkingu á samskiptum og þátttökuferlum. Einnig þarf að auka almenna viðurkenningu og skilning innan Landgræðslunnar og hjá yfirvöldum á þátttökunálgunum og mikilvægi mannlegra samskipta fyrir árangur í landgræðslu. Hin tilfinningalega hlið þátttökunálgana þarf líka meiri athygli.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image