Vistheimt á norðurslóðum—Ecological Restoration in Northern Regions

Nýlega kom út safn greina um vistheimt (endurheimt vistkerfa) á norðurslóðum í sérhefti vísindaritsins Ecology and Society. Greinarnar fjalla um fjölbreytt verkefni, allt frá endurheimt straumvatna í Svíþjóð, mómýra í Finnlandi og heræfingarsvæða í Noregi til verkefnisins Bændur græða landið á Íslandi.

Áhugi alþjóðasamfélagsins á vistheimt hefur aukist á undanförnum árum, enda veita vistkerfi margvíslega þjónustu sem við byggjum lífsviðurværi og stóran hluta menningar okkar á. Almennt er viðurkennt að vistheimt gegnir mikilvægu hlutverki við að draga úr og snúa við tapi á líffræðilegri fjölbreytni og sporna við loftslagsbreytingum. Vistheimt eykur einnig viðnám og þanþol vistkerfa gagnvart náttúruhamförum, svo sem flóðum, skriðuföllum eða öskufalli, og dregur úr áhrifum þeirra.

Greinarnar í ritinu eru afrakstur alþjóðlegrar ráðstefnu sem haldin var á Selfossi árið 2011, á vegum norræns samstarfsverkefnis um vistheimt á Norðurlöndunum, ReNo. Rauður þráður í öllum greinunum er að árangursrík vistheimt byggir ekki einungis á tæknilegum og vistfræðilegum lausnum, heldur þarf hún að vera í góðri sátt við nærsamfélagið og er háð stefnumótun stjórnvalda. Þetta kemur glöggt fram í greininni Ecological and Social Dimensions of Ecosystem Restoration in the Nordic Countries, þar sem borin er saman vistheimt á Norðurlöndunum. Þar kemur fram að þær nálganir sem beitt er við vistheimt ráðast fyrst og fremst af því vistkerfi eða búsvæði sem verið er að endurheimta en félagslegir og efnahagslegir þættir hafa mikið að segja um það hvar og hvenær vistheimtin á sér stað.

Í ritinu eru þrjár greinar sem fjalla um vistheimt á Íslandi. Þær tengjast rannsóknum framhaldsnema við Landbúnaðarháskóla Íslands; Þórunnar Pétursdóttur doktorsnema og Britu Berglund mastersnema.

Aðgangur að greinum í Ecology and Society er öllum opinn. Heimasíða ritsins er http://www.ecologyandsociety.org/ en hægt er að nálgast greinarnar um vistheimt á norðurslóðum hér

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image