Kallað er eftir þátttakendum í vinnustofu sem haldin verður í tengslum við verkefnið „Svæðisbundinn stuðningur í íslenskum landbúnaði“ sem styrkt er af Byggðarannsóknasjóði. Vinnustofan fer fram á Hvanneyri, föstudaginn 7. febrúar, kl. 09:00–12:00, og verður boðið upp á léttar veitingar.
Verkefnið byggir á nýlegri skýrslu sem Landbúnaðarháskóli Íslands vann fyrir Matvælaráðuneytið. Þar kemur fram að samanburðarlönd á borð við Finnland, Svíþjóð, Noreg og Austurríki nýta svæðisbundinn stuðning sem hluta af landbúnaðarstuðningi sínum. Í skýrslunni var þó ekki skoðað hvernig svæðastuðningur er reiknaður út eða hvernig innleiða mætti sambærilegt kerfi á Íslandi.
Tilgangur vinnustofunnar er að ræða útfærslu tillagna að slíku kerfi hér á landi, með hliðsjón af erlendum stuðningskerfum og séríslenskum aðstæðum, svo sem búskaparskilyrðum, náttúru- og veðurfarslegum þáttum ásamt félagslegum- og hagrænum þáttum. Sérstök áhersla verður að ræða hvaða forsendur ættu að liggja til grundvallar svæðistengdum stuðningi og hvernig slíkt kerfi gæti styrkt sérstaklega þá bændur og byggðir sem á þyrftu að halda.
Jóhanna Gísladóttir og Torfi Jóhannesson munu leiða vinnustofuna og verður dagskrá send út þegar nær dregur.
Vinsamlegast staðfestið þátttöku með því að fylla út hér: https://forms.office.com/e/7KVYiJwJ0m