dag luku 13 nemar Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna námsdvöl sinni hjá Landgræðslu ríkisins í Gunnarsholti en þar hefur hópurinn verið í átta vikur. Áður en þau fóru gróðursettu þau á annan tug reyniviðarplantna í landi sem var uppblásið og gróðursnautt fyrir rúmum aldarfjórðungi, norðaustan Gunnarsholts. Þetta er fyrsti vísirinn að skógarlundi sem hlotið hefur heitið Vinaskógur Landgræðsluskóla Sameinuðu þjóðanna. Ætlunin er að nemar næstu ára haldi áfram gróðursetningunni. Sveinn Runólfsson, landgræðslustjóri, ávarpaði hópinn og sagði honum frá því að fyrir fáum áratugum hefði svæðið verið svartur sandur en fyrir tilstilli Þjóðargjafarinnar 1974 var hægt að bera á landið með góðum árangri. Nemarnir notuðu jarðvegsbæti frá Ána á Egilsstöðum til að tryggja plöntunum næga næringu meðan þær skjóta rótum. Næstu vikurnar munu nemarnir vinna í verkefnum sínum í húsnæði Landbúnaðarháskóla Íslands á Keldnaholti, en þeir útskrifast í lok september.
Budbaatar Ulambayar frá Mongólíu og Huriatu Anafo Alidu frá Gana undirbúa gróðursetningu
Landgræðsluskólinn er samstarfsverkefni Háskóla Sameinuðu þjóðanna, Landbúnaðarháskóla Íslands, Landgræðslu ríkisins og utanríkisráðuneytisins. Markmið skólans er að þjálfa sérfræðinga frá þróunarlöndum, sem glíma við jarðvegs- og gróðureyðingu og neikvæð áhrif loftslagsbreytinga, í landgræðslu og sjálfbærri nýtingu lands. Sögu skólans má rekja allt aftur til ársins 2007 og síðan þá hafa tugir nema útskrifast frá skólanum. Nemarnir koma í mars ár hvert og dvelja hér á landi til septemberloka.
Hópurinn að lokinni gróðursetningu