Nám í Reiðmanninum á vegum Endurmenntunar Landbúnaðarháskóla Íslands (LBHÍ) hefur notið mikilla vinsælda og síðastliðinn vetur voru tæplega 250 nemendur sem sóttu námið. Búið er að opna fyrir skráningar og umsóknarfrestur til 5. júní næstkomandi. Nú þegar hafa rúmlega 100 manns sótt um námið og er að verða fullt í nokkra hópa.
Margir af fremstu reiðkennurum landsins kenna verklegan hluta námsins og vel valdir sérfræðingar sjá um bóklega kennslu. Verkefnastjóri Reiðmannsins er Randi Holaker reiðkennari og tamningamaður. Randi hefur brennandi áhuga á reiðkennslu og býr yfir mikilli reynslu á því sviði innanlands og erlendis.
Í boði eru fjórar námsleiðir í Reiðmanninum:
Reiðmaðurinn I þar sem áhersla er lögð á þjálfun á reiðfærni knapans til að knapinn öðlist skilning á atferli og eðli hestsins, átti sig á því hvernig heusturinn lærir og skynjar umhverfi sitt og að knapinn öðlist kunnáttu og tækni til að þjálfa hestinn í grunnþjálfun á gangtegundum. Reiðmaðurinn I er tveggja anna bóklegt og verklegt nám sem metið er til 18 framhaldsskólaeininga (fein).
Reiðmaðurinn II þar sem haldið er áfram að vinna með liðkandi og styrkjandi æfingar bæði við hendi og á baki. Unnið er ítarlegar með líkamsbeitingu hestsins og að nemendur öðlist skilning á hreyfifræði og þjálffræði hestsins, farið í orsakir og afleiðingar misstyrks og unnið áfram í að kenna hestinum og knöpum safnandi æfingar. Reiðmaðurinn II er tveggja anna bóklegt og verklegt nám sem metið er til 19 framhaldsskólaeininga (fein).
Reiðmaðurinn III er sjálfstætt framhald af Reiðmanninum I og II þar sem áhersla er lögð á einstaklingsmiðaða kennslu út frá markmiðum hvers nemanda. Fyrstu verklegu helgina er gerð ítarleg úttekt á knapa og hesti og eftir fyrstu helgi setur knapinn upp markmið annarinnar og þjálfunarátælun út frá henni. Námið er bæði bóklegt og verklegt og metið til 9 framhaldsskólaeininga (fein).
Keppnisnám Reiðmannsins er kennt á vormisseri 2025 og opnað er fyrir skráningar í október 2024. Markmið námsins er að þátttakendur öðlist aukna færni í að undirbúa og þjálfa sjálfan sig og hestinn fyrir þátttöku í keppnum og sýningum og markmiðasetningu við þjálfun keppnishesta með áherslu á æfingar sem hafa nytsamlegt gildi fyrir keppnisþjálfun. Námið er metið til 6 framhaldsskólaeininga (fein).
Skráning og allar nánari upplýsingar á vef Endurmenntunar LBHÍ.