Landbúnaður í gegnum safn og skóla - Málþing til heiðurs Bjarna Guðmundssonar

Málþingið var vel sótt og fjölbreitt og fróðleg dagskrá.

Vel heppnað málþing

Málþingið Landbúnaður í gegnum safn og skóla til heiðurs próf. Bjarna Guðmundssyni fór fram á Hvanneyri fimmtudaginn 31. ágúst. Þingið var vel sótt og var mál manna að það hefði tekist afar vel þar sem fram komu fyrirlesarar sem héldu erindi um mismunandi mál tengd Landbúnaðarsafni og Landbúnaðarháskóla. Ennfremur skemmti Viðar Guðmundsson gestum þingsins í kaffisamsæti ásamt þeim Ástu Marý Stefánsdóttur og Snorra Hjálmarssyni. Anna Heiða Baldursdóttir sérfræðingur við Landbúnaðarsafnið og Ragnhildur Helga Jónsdóttir forstöðumaður stóðu að undirbúningi. Áhugaverðar framsögur voru á dagskrá sem drógu fram þverskurð af starfseminni. Dagskrána má nálgast hér.  

Ragnhildur Helga Jónsdóttir safnstjóri t.v. og Anna Heiða Baldursdóttir sérfræðingur veita Bjarna Guðmundssyni gjöf að málþingi loknu.

 

Anna Heiða sagði „af viðbrögðum gesta má sjá að svona viðburðir eru mikilvægir á margan hátt. Fyrst má nefna að fyrir báðar stofnanirnar sem voru viðfangsefni málþingsins er nauðsynlegt að staldra við og taka stöðuna á hvað hefur verið gert, hvað er verið að gera og hvert skal halda. Þannig er hægt að forðast aðskilnað þeirra á milli en saga safnsins og skólans er samofin og merkileg að því leyti að sambúð og samstarf beggja er einstakt á landsvísu. Landbúnaðarsafnið eitt af tveimur háskólasöfnum landsins og Landbúnaðarháskólinn státar sig á að vera stofnaðili að safni.“ 

 

Mikilvægt er að hlúa að þessu sambandi enda geta báðar stofnanir hagnast mjög á samstarfi á sviði t.d. menntunar, fræðslu, sjálfbærni, sögu, búvísinda, menningar, rannsókna og miðlunar. Það má einnig minna á, að viðburðir af þessu tagi fá fólk til að koma saman, fagna tímamótum og taka á móti fjölbreyttum fróðleik sem eflir vitund fólks á hvað býr að baki starfsemi safna og skóla. Markmið málþingsins var einmitt þetta ásamt því að auðga miðlun á sviði menningar í nærsamfélagi Landbúnaðarsafnsins.

Ragnheiður I. Þórarinsdóttir rektor Landbúnaðarháskóla Íslands stýrði málþinginu.

 

Ragheiður I. Þórarinsdóttir rektor Landbúnaðarháskólans sagði við tilefnið „Landbúnaðarsafn Íslands skipar stóran sess hjá Landbúnaðarháskóla Íslands enda mikilvægt að eiga þennan fjársjóð sem safnið er og sem tvinnar saman söguna við nútímann og framtíðina. Það eru ótal tækifæri til að þróa Landbúnaðarsafnið áfram með aðstoð sérfræðinga Landbúnaðarháskólans og samstarfsaðila hérlendis og erlendis. Ein af þeim hugmyndum sem hefur verið rædd er að nýta nútímatækni til að leyfa gestum að upplifa störfin í sveitinni og hvernig þau hafa breyst í áranna rás með aukinni tæknivæðingu. Þannig væri með gagnvirkum búnaði hægt að leyfa gestum safnsins að slá með orfi og ljá og renna síðan í gegnum árin með búnaði sem tók sífelldum breytingum, eða vinna með skilvindu fyrri ára og upplifa þróunina til nútímaframleiðslu mjólkurafurða.

 

Að lokum vill starfsfólk Landbúnaðarsafnsins og Landbúnaðarháskólans þakka gestum fyrir komu sína á Hvanneyri. Ennfremur viljum við koma fram þakklæti til þeirra sem lögðu sitt af mörkum svo málþingið varð að þeim velheppnaða viðburði sem raun var!

Heimasíða Landbúnaðarsafns Íslands 

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image