Helena Guttormsdóttir formaður úthlutunarnefndar Uppbyggingarsjóðs Vesturlands frá streymi úthlutunarhátíðarinnar.

Úthlutunarhátíð Uppbyggingarsjóðs Vesturland

Í dag var haldin úthlutunarhátíð Uppbyggingarsjóðs Vesturlands 2022. Hátíðin var haldin með rafrænum hætti í annað sinn vegna samkomutakmarkana. Landbúnaðarháskóli Íslands fékk úthlutað tveimur styrkjum samtals að upphæð 2.500 þús.kr og Landbúnaðarsafnið hlaut styrk að upphæð 750 þús.kr.

Í flokki atvinnu- og nýsköpunarstyrkja fengu 17 verkefni styrk og þar á meðal voru tveir styrkir til Landbúnaðarháskóla íslands. Verkefnin sem hlutu styrk voru: Bætt nýting sláturafurða og nýting afurða í nærsamfélagi annars vegar og hins vegar Skordýr sem fóður og framtíðarfæða.

Bætt nýting sláturafurða og nýting afurða í nærsamfélagi er unnið í góðu samstarfi LbhÍ við Sláturhúsið í Borgarnesi og H-Veitingar sem sér um mötuneyti skólans á Hvanneyri. Áshildur Bragadóttir stýrir verkefninu, en auk hennar koma Logi Sigurðsson, Eyjólfur Kr. Örnólfsson, Hendrik Hermannsson og Eiríkur Blöndal að verkefninu. Skordýr sem fóður og framtíðarfæða er framhald af verkefni sem hófst sl. sumar með vinnu Rúnu Þrastardóttur undir leiðsögn Ragnheiðar Þórarinsdóttur. Verkefnið byggir á tilraunum með mjölorma og hermannaflugu, en þessar tegundir hafa verið að ryðja sér til rúms í ræktun í Evrópu og aðallega verið nýttar til fóðurgerðar. Áhugi á nýtingu sem fæða fer vaxandi og reglugerðir í löndum Evrópu sífellt að opna fyrir nýja möguleika.

Í flokki menningartengdra verkefna hlutu 71 verkefni styrk og meðal þess var styrkur til Landbúnaðarsafnsins vegna verkefnisins: Saga laxveiða í Borgarfirði. Það eru Ragnhildur H. Jónsdóttir og Anna Heiða Baldursdóttir sem munu stýra verkefninu þar sem rannsakað verður hvernig laxveiðar hafa þróast í Borgarfirði, hvert mikilvægi þeirra er fyrir landnýtingu á svæðinu, auk söfnunar frásagna, mynda og muna sem tengjast veiðunum.

Við óskum öllum styrkþegum innilega til hamingju.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframsleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image