Landbúnaðarháskóli Íslands ásamt samstarfsaðilum hlaut styrki úr Samstarfi háskóla vegna fimm verkefna sem háskólinn er aðili að en Samstarfi háskólanna var komið á laggirnar til að stuðla að auknu samstarfi milli háskóla á Íslandi með það að markmiði að auka gæði háskólanáms og bæta samkeppnishæfni háskólanna og var fyrst úthlutað í byrjun árs 2023.
Alþjóðlegt dýralæknanám (LBHÍ, HÍ, HH) – 22 milljónir
Áhersla: Alþjóðastarf og áskoranir
Markmið verkefnisins er að hefja formlegt samstarf um dýralæknanám milli LbhÍ, Keldna, HÍ, HH og Lífvísindaháskólinn í Varsjá (SGGW, Szkoła Główna Gospodarstwa Wiejskiego w Warszawie). Miðað er við að fyrstu tvö árin verði kennd á Íslandi en síðan fari nemendur til SGGW í Póllandi. Í síðari hluta námsins verður boðið upp á hluta af verklega náminu á Íslandi.
Framhaldsnám og rannsóknainnviðir í lífvísindum (HÍ, HR, LBHÍ, HH, HA) – 43,5 milljónir
Áhersla: Sveigjanleiki í námi
Stofnaður verður vettvangur fyrir rannsakendur og nemendur í STEM greinum til að auka samstarf saman þvert á stofnanir. Jafnframt verður sett á laggirnar námskeið í lífvísindum fyrir framhaldsnemendur. Settir verða upp verkferlar um nýtingu rannsóknainnviða í erfðatækni og smásjármyndgreiningu og úrvinnslu og varðveislu gagna. Hagrætt verður í innkaupum á rannsóknavörum með markvissri kortlagningu.
Hamfarafræðinám (HÍ, HR, LBHÍ, HB, HA) – 13 milljónir
Áhersla: Sveigjanleiki í námi
Verkefnið leggur grunninn að þverfaglegu meistara- og diplómanám í hamfarafræðum með virkri þátttöku fimm íslenskra háskóla og þriggja lykilstofnana á sviðinu. Litið er til þess að náttúruvá og hamfarir afmarkast ekki við náttúruleg ferli heldur snerta fjölmörg fagsvið í samfélaginu. Þess vegna er mikilvægt að viðbragðið nái bæði yfir náttúruleg ferli og samfélagslega þætti.
Hátæknilandbúnaður (LBHÍ, HÍ, HR) – 60 milljónir
Áhersla: Innviðir
Komið verður upp aðstöðu sem styður við kennslu og þróun á sviði hátæknilandbúnaðar á Íslandi. Markmiðið er að bæta samkeppnishæfni með gagnadrifinni sjálfvirkni sem byggir á öflugri úrvinnslu (s.s. með gervigreind) yfir alla virðiskeðjuna til að auka virði, geymsluþol og útflutningsverðmæti afurða.
Nám í lagareldi (HH, HÍ, LBHÍ, HA) – 65 milljónir
Áhersla: Sveigjanleiki í námi
Markmið verkefnisins er að efla enn frekar lagareldisnám með því að a) byggja upp og kenna ný námskeið á meistarastigi, b) þróa örnám í lagareldi á grunn- og meistarastigi, c) þróa aðferðir og kennsluefni til að auka kennslu námskeiða í fjarnámi.
Frétt á vef Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis: Nítján verkefni hljóta stuðning úr þriðja Samstarfi háskóla