Hér er verið að sá í tilraunaakra vegna jarðræktarrannsókna hjá skólanum

Út er komið Rit LBHÍ nr. 115 og er það lokaskýrsla um átaksverkefni í byggrækt á Íslandi á árunum 2013 - 2018.

Nemandi við vinnu á byggakri

Byggrækt á Íslandi hefur jafnt og þétt vaxið fiskur um hrygg undanfarin ár og skiptir þar án efa mestu máli almennur áhugi bænda á nýsköpun í ræktun. Þennan áhuga má meðal annars merkja í auknum áhuga á ræktun annarra nytjaplantna svo sem repju og hafra. Þann ágæta árangur sem íslenskir bændur hafa náð í ræktun byggs má án efa skýra með ýmsum þáttum, svo sem batnandi umhverfisskilyrðum til ræktunar, bættum búskaparháttum, prófunum á erlendum byggyrkjum auk kynbóta sérstaklega fyrir íslenskar aðstæður. 

Starfsmenn Landbúnaðarháskóla Íslands leggja, eftir fremsta megni, sín lóð á vogaskálar nýsköpunar í landbúnaði á ýmsum sviðum og hafa meðal annars stundað rannsóknir á byggi undanfarna áratugi. Hér birtum við yfirlit yfir niðurstöður úr samanburðartilraunum á byggi sem fram hafa farið á víðsvegar um landið á yfir 30 ára tímabili, förum yfir helstu niðurstöður sjúkdómsrannsókna, ásamt því að velta fyrir okkur framtíð byggrannsókna og nýtingar, en áður hafa þessar niðurstöður birst sem tilraunaskýrslur og/eða sem ritrýndar greinar. Niðurstöður sýna að uppskera í tilraunum hefur aukist á sama tíma og ræktunartímabilið styttist. Íslenskar kynbótalínur skila ekki aðeins meiri uppskeru í tilraunum heldur skríða þær einnig fyrr sem leiðir til þess að þær eru uppskornar fyrr.

Niðurstöðurnar sem kynntar eru í Ritinu undirstrika bæði kosti og galla íslenska kynbótaverkefnisins og eru því mikilvægar fyrir áframhald yrkjatilrauna hérlendis. Niðurstöðurnar undirstrika jafnframt að næsta stóra áskorun kynbótafólks er að auka sjúkdómsþol í íslenskum byggyrkjum enda sýna rannsóknir að fjölbreytileiki sjúkdómsvaldandi sveppa er mun meiri hérlendis en ætla mætti og fyrirsjáanlegt að sjúkdómsálag aukist umtalsvert eftir því sem byggrækt eykur útbreiðslu sína.

Ritið má finna undir www.lbhi.is > rannsóknir > útgefið efni > Rit LBHÍ 
Pdf skjal má finna hér 

Höfundar

  • Hrannar Smári Hilmarsson (M.Sc.) er tilraunastjóri í jarðrækt við Landbúnaðarháskóla Íslands og hefur starfað við skólann sem slíkur frá því 2016, en áður var hann verkefnaráðinn starfsmaður í byggrannsóknum. Hrannar er með B.Sc. gráðu í búvísindum og M.Sc. gráðu í erfðafræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands. 
  • Magnus Göransson (M.Sc.) er sérfræðingur á sviði kynbóta við Landbúnaðarháskóla Íslands þar sem hann hefur starfað frá árinu 2008. Magnus er með M.Sc. gráðu frá SLU – Sænska landbúnaðarháskólanum. Magnus hefur áður m.a. starfað hjá Norræna Genbankanum.
  • Jónína Svavarsdóttir (B.Sc.) er aðstoðarmaður við jarðræktarrannsóknir Landbúnaðarháskóla Íslands. Hún hóf störf sumarið 2018 og er með B.Sc. gráðu í náttúru- og umhverfisfræðum frá Landbúnaðarháskóla Íslands.
  • Jón Hallsteinn Hallsson (Ph.D.) er dósent í erfðafræði við Landbúnaðarháskóla Íslands og hefur starfað við skólann frá því í byrjun árs 2005. Á þessum árum hefur hann stundað rannsóknir á bæði plöntum og dýrum. Jón er með B.Sc. gráðu í sameindalíffræði frá Háskóla Íslands og Ph.D. gráðu frá sama skóla. Jón kennir erfðafræði og frumulíffræði við Landbúnaðarháskólann auk þess að kenna við Háskóla Íslands.
logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image