Kristín Pétursdóttir brautarstjóri landslagsarkitektúrs við Landbúnaðarháskóla Íslands

Umhverfisskipulag verður landslagsarkitektúr

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur staðfest breytingu á heiti brautar umhverfisskipulags í landslagsarkitektúr. FÍLA, Félag íslenskra landslagsarkitekta hvatti brautina til nafnabreytingar við aðild félagsins að umsókn brautarinnar til IFLA, International Federation of Landscape Architecture, um viðurkenningu á náminu.

„Þessi breyting gerir okkur kleift að tengja námið enn betur við fag landslagsarkitekta og gera sýnilegra“ segir Kristín Pétursdóttir brautastjóri.

Aukin áhersla er á tengingu manns við náttúruna og mikilvægt að sjálfbærni og vistvæn nálgun sé í fyrirrúmi. Náttúran hefur aldrei verið eins mikið í brennidepli og mikilvægt að vanda til verka til framtíðar. Hvort sem það er að vernda viðkvæmar náttúruperlur eða hanna umgjörð sem fellur vel að umhverfinu þá sameinar landslagsarkitekt þekkingu á sviði náttúru- og umhverfisvísinda jafnt og þekkingu á byggingarfræði og hönnun.

Við Landbúnaðarháskóla Íslands höfum við menntað fólk í umhverfisskipulagi eða bakkalár nám í landslagsarkitektúr í nítján ár með góðum árangri og það er því spennandi að þróa námið enn frekar með nafnabreytingunni.

Bréf menntamálaráðuneytis:

„Með bréfi mennta- menningarmálaráðuneyti til Landbúnaðarháskóla Íslands 5. september 2007 var veitt staðfesting þess að Landbúnaðarháskóli Íslands hefði viðurkenningu á fræðasviðinu Náttúruvísindi ásamt ákveðnum undirflokkum þess. Viðurkenningin nær til undirflokka fræðasviðsins þ.e. náttúru- og umhverfisfræði, skógfræði og landgræðslu og umhverfisskipulags. Enska heiti undirflokksins er Landscape Planning and Architecture.

Þar sem skólinn er með viðurkenningu á ofangreindum undirfokkum fræðasviðsins er það Landbúnaðarháskóla Íslands að ákveða heiti brautarinnar og gerir mennta- og menningarmálaráðuneytið ekki athugasemdir við þau áform hans að brautin fái heitið Landslagsarkitektúr“

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image