Tvær meistaravarnir í umhverfisdeild

Tveir nemendur munu verja meistararitgerðir sínar í lok vikunnar við umhverfisdeild Landbúnaðarháskóla Íslands. Þetta eru þær Guðrún Óskarsdóttir, meistaranemi í náttúru- og umhverfisfræðum, og Guðrún Guðmundsdóttir, meistaranemi í skipulagsfræðum.

 

 

  1. Háskóli Íslands

Fimmtudaginn 11. desember ver Guðrún Óskarsdóttir ritgerð sína, Vistheimt í þéttbýli - Gróðurfar í Reykjavík og möguleikar til að fjölga innlendum plöntutegundum. Aðalleiðbeinandi er Ása L. Aradóttir og meðleiðbeinendur eru Magnús H. Jóhannsson og Samson B. Harðarson. Prófdómari er Borgþór Magnússon. Hlynur  Óskarsson, deildarforseti umhverfisdeildar stýrir athöfninni. Vörnin fer fram í Geitaskarði á Keldnaholti og hefst kl 14.00. Allir velkominir.

Háskóli Íslands

Stutt ágrip ritgerðar Guðrúnar:

Í vaxandi mæli er farið að líta á þéttbýli sem vistkerfi. Í því sambandi hefur athyglin beinst að stóru vistspori þéttbýlis og aðferðum til að draga úr því. Markmið þessa verkefnis voru að kanna hvers konar gróðurlendi finnast á völdum svæðum innan Reykjavíkur, hvers konar gróður er ríkjandi í hverju gróðurlendi og kanna mögulegar leiðir til þess að auka líffræðilega fjölbreytni á grænum svæðum en það eru mikilvæg skref í átt til vistheimtar í þéttbýli.

Niðurstöður sýna að á rannsóknarsvæðunum voru svæði með tiltölulega fábreyttum graslendisgróðri langalgengust. Tegundafjölbreytni var marktækt meiri á mólendissvæðum en graslendissvæðum en mólendissvæðin voru mun færri. Til þess að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni á grænum svæðum í Reykjavík telst því æskilegt að auka tegundafjölbreytni á graslendissvæðum og varðveita mólendi þar sem það er að finna.

Í könnun á mögulegum leiðum til þess að auka líffræðilega fjölbreytni á grænum svæðum var lögð áhersla á möguleika til að fjölga innlendum plöntutegundum. Niðurstöður benda til þess að ýmis tækifæri felist í notkun innlendra plöntutegunda til vistheimtar í þéttbýli.

 

 

Háskóli Íslands

Föstudaginn 12. desember ver Guðrún Guðmundsdóttir ritgerð sína, Endurnýting hafnarsvæða - Mótun aðferðafræði fyrir skipulagsstefnu Flensborgarhafnar og annarra vannýttra hafnarsvæða við umhverfisdeild Landbúnaðarháskóla Íslands. Leiðbeinandi er Dr. Bjarki Jóhannesson og meðleiðbeinandi er Yngvi Þór Loftssons. Prófdómari er Sverrir Örvar Sverrisson. Hlynur  Óskarsson, deildarforseti umhverfisdeildar stýrir athöfninni. Vörnin fer fram í Geitaskarði  á Keldnaholti og hefst kl 14.00. Allir velkomnir.

Háskóli Íslands

Stutt ágrip ritgerðar Guðrúnar:

Undanfarna áratugi hafa hafnarsvæði við innri hafnir í borgum og bæjum um allan heim verið endurnýjuð, oft í tengslum við endurreisn miðbæja. Þar sem vel hefur tekist til við endurnýtingu svæðanna eru þau nú iðandi af mannlífi og laða að íbúa og gesti, sem eiga þess kost að njóta þar ýmiss konar afþreyingar, útivistar, menningar og þjónustu. Endurbætur við innri hafnir hérlendis eru fyrirsjáanlegar, en hliðstæð þróun hefur átt sér stað að takmörkuðu leyti í íslenskum sjávarbyggðum.  Tilgangur verkefnisins er að taka saman niðurstöður rannsókna á endurnýttum hafnarsvæðum erlendis og reynslu af þeim, sem byggja má á við undirbúning stefnu og skipulags á áþekkum svæðum. Ennfremur að þróa og setja fram aðferðafræði, sem nota má við undirbúning hliðstæðra endurnýtingarverkefna og jafnframt að beita aðferðinni á vannýtt hafnarsvæði hér á landi, þ.e. á Flensborgarhöfn í Hafnarfirði. Aðferðafræðin, sem sett er fram í verkefninu, miðar að mótun skipulagsstefnu með frumdrögum fyrir svæðin.

Niðurstöður verkefnisins gáfu til kynna jákvæða áhersluþætti og gerð endurbyggingar á hafnarsvæðum sem hafa tekist vel með tilliti til ábata fyrir samfélagið sem svæðið heyrir til. Með hliðsjón af jákvæðri reynslu af svæðum erlendis og niðurstöðum rannsóknar á athugunarsvæðinu, voru leiddar líkur að hvaða þættir eru líklegir til að laða að mannlíf og virkni á Flensborgarhöfn. Með niðurstöðunum skapaðist grunnur að stefnu um endurnýtingu athugunarsvæðisins og í lok verkefnisins voru lagðar til útlínur að skipulagsstefnu og umbótum á Flensborgarhöfn. 

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image