Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor og Jón Karl Ólafsson, stjórnarformaður GRÓ við undirritunina

Þjónustusamningur undirritaður á milli GRÓ Þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu og Landbúnaðarháskóla Íslands

Frá vinstri Sjöfn Vilhelmsdóttir forstöðumaður Landgræðsluskólans, Ragnheiður I. Þórarinsdóttir rektor, Bryndís Kjartansdóttir framkvæmdastjóri GRÓ og Jón Karl Ólafsson stjórnarformaður GRÓ.

Á miðvikudag var undirritaður þjónustusamningur á milli GRÓ Þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu og Landbúnaðarháskóla Íslands um rekstur Landgræðsluskóla GRÓ en hann er ætlaður fyrir nemendur frá þróunarlöndum sem hluti af þróunaraðstoð íslenskra stjórnvalda. 

Landgræðsluskólinn hefur verið starfræktur í húsakynnum Landbúnaðarháskólans á Keldnaholti í Reykjavík síðan árið 2007, en fagstarf skólans og framkvæmd námsins hefur verið samstarfsverkefni Landbúnaðarháskólans og Landgræðslunnar. Landgræðsluskólinn starfaði sem hluti af neti Háskóla Sameinuðu þjóðanna en með stofnun GRÓ Þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu í byrjun árs starfar skólinn núna undir merkjum GRÓ.  

Jón Karl Ólafsson, stjórnarformaður GRÓ og Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands undirrituðu samninginn en Bryndís Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri GRÓ og Sjöfn Vilhelmsdóttir, forstöðumaður Landgræðsluskólans stýrðu athöfninni og voru fjarlægðartakmarkanir virtar og vel hugað að sóttvörnum. 

Sú þekking á sviði landgræðslu sem starfandi sérfræðingar frá þróunarríkjum hafa fengið hér á Íslandi er mikilvæg og hefur bætt lífsgæði fólks í þróunarríkjum. Þetta hafa úttektir á þróunarsamvinnu þegar sýnt“ segir Bryndís Kjartansdóttir framkvæmdastjóri GRÓ. „GRÓ hlakkar til þess að halda áfram þessu öfluga og gefandi starfi sem Landbúnaðarháskólinn og Landgræðslan hafa annast“ segir Bryndís að lokinni athöfn. 

Þjónustusamningurinn tekur á þáttum sem snúa að fjármögnun utanríkisráðuneytisins á skólanum í gegnum GRÓ og stjórnsýslulegri ábyrgð Landbúnaðarháskólans sem hýsistofnunar. Faglegt skipulag Landgræðsluskólans verður áfram með sama móti og áður þar sem megináherslur í starfseminni eru 

• Skipuleggja og starfrækja sex mánaða þjálfunarnámskeið um landgræðslu og sjálfbæra landnýtingu fyrir sérfræðinga frá þróunarlöndum. 

• Halda stutt námskeið og vinnustofu á sviði landgræðslu í samstarfslöndum skólans. 

• Bjóða nemendum sem klárað hafa sex mánaða námið tækifæri til að halda áfram í meistara eða doktorsnám á sviði landgræðslu við háskóla á Íslandi. 

GRÓ Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu tók til starfa 1. janúar sl. og byggir á samningi utanríkisráðuneytisins og Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna UNESCO. GRÓ Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu starfar undir merkjum UNESCO sem sjálfstæð stofnun þar sem saman koma fjórir skólar, auk LandgræðsluskólansJarðhitaskólinnJafnréttisskólinn og Sjávarútvegsskólinn. Skólarnir eru fjármagnaðir af utanríkisráðuneytinu sem hluti af alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands.

„Það er mikið tilhlökkunarefni að þróa áfram það góða starf sem byggir á sterkum grunni og fyrrum samstarfs við Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Landbúnaðarháskóli Íslands og Landgræðslan hafa átt í góðu samstarfi frá upphafi Landgræðsluskólans og sérfræðingar frá báðum aðilum hafa þróað þjálfunarnámskeið sem haldin hafa verið hérlendis og í þróunarlöndunum. Sérfræðingar UNESCO koma að borðinu með nýjar áherslur sem snúa að því að halda áfram á þeim grunni sem byggður hefur verið og útvíkka samstarfið enn frekar,“ segir Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskólans við undirritunina. 

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image