Teymi innan Landbúnaðarháskólans tekur þátt í alþjóðlegri hönnunarsamkeppninni samtakanna C40 Reinventing Cities. Markmið samtakanna er að vinna að samkeppnum fyrir borgir sem vilja leggja sig fram í baráttunni gegn loftslagsvanda og tekur Reykjavíkurborg þátt. Framlag borgarinnar var lóðin að Sævarhöfða 31 sem er um 3000 m2 þróunarreitur. Reiturinn einkennist af gömlum mannvirkjum með síló sem sterkt kennileyti. Vinningstillagan þarf að hafa sjálfbærni að leiðarljósi í öllum þáttum hönnunarinnar.
Tvö teymi komust áfram eftir fyrsta hluta samkeppninnar og var Landbúnaðaháskóli Íslands í öðru teyminu ásamt VSÓ ráðgjöf, Reiulf Samstad Arkitekter AS, M-Studio, ÍF, BM-Vallá og GXN Copenhagen. Lokahönnunartillögu verður skilað inn um miðjan mars. Frá Landbúnaðarháskóla Íslands taka þátt Kristín Pétursdóttir lektor og brautarstjóri, Steinunn Garðarsdóttir sérfræðingur og Samaneh Nickayin lektor og starfa þær innan fagdeildar skipulags og hönnunar við skólann.
Við óskum teyminu góðs gengis og fylgjumst með framvindu verkefnisins.