Landbúnaðarháskólinn verður á stórsýningunni Íslenskur Landbúnaður sem haldin verður um helgina í Laugardalshöllinni. Sýningin opnar kl 13 föstudaginn 12. okt og verður opin til kl 19 einnig er opið á laugardag frá 10-18 og sunnudag frá 10-17. Við hvetjum sem flesta að leggja leið sína í Laugardalinn og kynnast því sem er að gerast í landbúnaði á Íslandi í dag.
Við hjá LbhÍ viljum leggja rækt við framtíðina. Náttúra Íslands er einstök og það er ævilangt verkefni mannsins að leggja rækt við hana. Viðfangsefni Landbúnaðarháskóla Íslands er náttúran okkar í víðu samhengi - nýting hennar, verndun og viðhald. Nám við LbhÍ er tilvalið fyrir þá sem hafa áhuga á náttúru Íslands, umhverfismálum, hönnun, sjálfbærni, búvísindum, jarðrækt og matvælaframleiðslu.
Framundan eru gríðarlegar áskoranir í umhverfismálum og matvælaframleiðslu. Hnattrænar loftlagsbreytingar ógna landbúnaði um allan heim og munu gera framleiðslu matvæla erfiðari. Þetta kallar á að við hlúum að landbúnaði hér á landi og LbhÍ gegnir lykilhlutverki að þjálfa upp mannauð sem mun fá það hlutverk að glíma við þessar breytingar.
Mikilvægi sérfræðinga með framhaldsmenntun á öllum fræðasviðum skólans er mikið og það er lífsspursmál fyrir okkur að halda áfram að skapa og miðla nýrri þekkingu. Ný þekking verður til með rannsóknum og hvað varðar landbúnað á Íslandi, þá er þetta þekking sem ekki er hægt að flytja inn. Umhverfisskilyrði eru hvergi eins og á Íslandi og því er íslensk þekkingarsköpun á sviði landbúnaðar lífsnauðsleg fyrir okkar samfélag.
Kíkið á okkur um helgina og ég hvet einnig alla til að fylgja okkur á instagram og facebook en við munum vera með myndir og annað frá sýningunni þar.
@lbhi.is
@landbunadarhaskoli_islands