Hjá okkur eru staddir tveir franskir BS nemendur á 3. ári frá Purpan École D‘Ingénieurs og stunda nám í landbúnaðarvísindum. Þau eru hér í starfsþjálfun og vinna meðal annars að ReWet verkefninu á Læk í Leirársveit fram á sumar. Þau búa á Hvanneyri og sögðu okkur aðeins frá því sem þau eru að sýsla þessar vikurnar.
Ég heiti Pierre-Marie Donati og er 21 árs og kem frá Korsíku sem er lítil eyja suður af Frakklandi. Ég ólst upp við landbúnað og valdi því að læra jarðrækt við Purpan tækniskólan í Toulouse.
Sem hluti af námi mínu þá er ég starfsnemi á Hvanneyri og hafði heyrt góðar sögur frá fyrrum starfsnemum og rannsóknarverkefnin eru mjög áhugaverð.
Á Hvanneyri er ég aðalega að vinna að gagnasöfnun við ReWet verkefnið sem er í gangi við skólann. Ég nota tæki sem mæla losun gróðurhúsalofttegunda í votlendi. Mér finnst þetta mjög skemmtileg vinna og ég fæ að vera mikið utandyra og leggja mitt af mörkum við rannsókn sem þessa.
Auk þess þá fæ ég að upplifa að vera á Íslandi með alla sína náttúrufegurð, goshveri og fjöll. Ég var einnig heppin að geta upplifað landið ásamt öðrum alþjóðlegum nemendum sem eru við nám á Hvanneyri.
Að loknu þessu þriggja mánaða starfsnámi þá fer ég aftur til Korsíku og í ágúst byrja ég að vinna við eftirfylgniverkefni og tel ég að reynsla mín hér muni nýtast mér mjög vel.
Ég heiti Paloma Singla og er frá Rodez í suður Frakklandi nálægt Toulouse. Pabbi minn er kynbótafræðingur og móðir mín garðyrkjufræðingur og þess vegna valdi ég að læra búvísindi við Purpan tækniskólann í Toulouse.
Ég valdi að koma til Íslands því starfnámið hér er mjög áhugavert og ég vildi einnig kynnast Íslandi.
Hér á Hvanneyri vinn ég með Pierre við gagnasöfnun í REWET verkefninu. Starfsnámið gengur mjög vel og við vinnum með frábæru fólki að fjölbreyttum verkefnum svo það er aldrei leiðinlegt!
Það sem ég elska mest er að fá að upplifa landið, ég sá norðurljós, hvali og risa stóra fossa sem var alveg frábært.
Þegar ég fer aftur til Frakklands að loknu starfsnáminu mun ég vinna sem þjónn en hef svo störf í haust í fyrirtæki með sáðvörur. Ég stefni síðan að því að vinna við erfða- eða örverufræði í framtíðinni.