Mánudaginn 20. október var haldin fyrsta vinnustofan hér á landi á vegum Evrópuverkefnisins DIGI-Rangeland í Ásgarði, aðalbyggingu Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) á Hvanneyri. Verkefnið snýst um að búa til öflugt alþjóðlegt tengslanet um notkun stafrænnar tækni í búfjárrækt sem byggir á úthagabeit.
Tæknin og áskoranir úthaga
DIGI-Rangeland verkefnið, sem hófst í ársbyrjun 2025 og stendur yfir í fjögur ár, er samstarf 11 landa víðsvegar um Evrópu og er LbhÍ meðal leiðandi aðila.
Undir stafræna tækni í verkefninu falla margvísleg tæki og búnaður, svo sem rafræn eyrnamerki, GPS-staðsetningarbúnaður, sýndargirðingar, drónar, raggangar, flokkunarhlið og búnaður til að stýra fóðrun.
Markmið vinnustofunnar var að sameina bændur, búalið, ráðunauta, dýralækna, rannsóknarfólk og aðra áhugasama aðila til að greina þarfir, kanna lausnir og efla samstarf.
Vettvangsferð og framtíðarsýn
Dagskrá vinnustofunnar var fjölbreytt. Auk kynningar á verkefninu sjálfu og umræðum um áskoranir, var farin vettvangsferð að fjárbúi LbhÍ að Hesti. Þar var skoðuð aðstaða sem nýtist til fóðrunartilrauna og byggir á stafrænni tækni, ásamt því að rætt var um framtíðarmöguleika á nýtingu tækninnar.
Í DIGI-Rangeland verkefninu felast mikil tækifæri fyrir íslenska bændur og tengda aðila til að taka þátt í alþjóðlegri umræðu og þróun stafrænna lausna sem henta sérstaklega vel við íslenskar aðstæður í úthaga.










