Þátttakendur skoða Sólheimajökul og áhrif hlýnunar jarðar en framhlið jökulsins hefur minnkað um 2.2 km2 frá síðustu öld

Smádýralíf norðurslóða á tímum loftslagsbreytinga. Doktorsnemakúrs NOVA háskólanna haldinn á Íslandi

Í lok ágúst var hópur nemenda og kennara á vegum NOVA háskólanna, sem er samstarf norrænna háskóla í landbúnaðarfræðum, skógfræðum og dýralækningum, staddir hérlendis á doktorsnemakúrsi sem LbhÍ stóð fyrir, í samstarfi við Landgræðsluna. Landbúnaðarháskóli Íslands er fullgildur aðili í NOVA og það samstarf opnar mikla möguleika fyrir nemendur okkar, til dæmis til skiptináms á Norðurlöndum, og er í raun mikilvæg forsenda fyrir því framhaldsnámi á meistara- og doktorsstigi sem LbhÍ býður upp á. En stór hluti framhaldsnema okkar sækja hluta af menntun sinni út fyrir landssteinana í gegnum þetta samstarf; og það er því mjög mikilvægt fyrir þróun þekkingar og færni næstu kynslóðar sérfræðinga okkar í til dæmis landbúnaðar-, skógfræði-, skipulags-, og umhverfisvísindum. Það er því gleðilegt þegar við íslendingar getum boðið upp á eitthvað spennandi fyrir aðra í NOVA samstarfinu.

Að þessu sinni var það Guðmundur Halldórsson, gestaprófessor við LbhÍ og rannsóknastjóri Landgræðslunnar, sem skipulagði námskeiðið „Arctic Entomology under Climate Change“, sem gæti útlagst „Smádýralíf norðurslóða á tímum loftslagsbreytinga“. Aðrir kennarar frá LbhÍ sem kenndu á námskeiðinu voru Isabel Barrio, lektor, og Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor. Einn af doktorsnemum LbhÍ tók þátt í námskeiðinu, en það var Brynja Hrafnkelsdóttir sem vinnur að doktorsverkefni um lífsferil og skaðsemi ertuyglu á Íslandi. Að auki voru á námskeiðinu 11 aðrir doktorsnemar af ýmsu þjóðerni, og sjö háskólakennarar frá hinum Norðurlöndunum. Námskeiðið var að mestu kennt í Gunnarsholti, sem eru höfuðstöðvar Landgræðslu ríkisins.

Þetta er annar NOVA doktorsnemakúrsinn í röðinni “Smádýr og loftslagsbreytingar á norðurslóðum” sem leggur áherslu á þær umtalsverðu áhrif sem skordýr og önnur smádýr eru að hafa á landbúnaðarframleiðslu á Norðurlanda í tengslum við loftslagsbreytingar. Þessi kúrs var líka hluti af UArtic Thematic Network “Sjálfbær framleiðsla og náttúrunýting á norðurslóðum“

Loftslagsbreytingar hafa á síðustu áratugum orðið hraðari á norðurslóðum en annarsstaðar á hnettinum og við sjáum nú þegar áhrif þess á ýmislegt í lífríkinu og í landbúnaði og skógrækt á norðurslóðum. Nýlega kom út yfirlitsgrein um þau áhrif sem við höfum merkt hér á íslandi á trjá- og skógrækt síðustu 100 árin; sjá HÉR.

Talið er að frekari hlýnun muni almennt bæta ræktunarskilyrði á norðurslóðum, eins og á Íslandi, en hinsvegar einnig stuðlað að aukinni tíðni skordýraplága, bæði af völdum innlendra og nýrra innfluttra tegunda, og aukið tíðni og útbreiðslu ýmissa plöntusjúkdóma. Þetta getur til dæmis leitt til þess að þörf á varnarefnum aukist eða á ýmsum lífrænum vörnum; líkt og nú þarf að beita í landbúnaði á suðlægari breiddargráðum. Það er því mikilvægt að fylgjast vel með þeim breytingum sem eru að verða og taka tillit til þeirra þegar litið er til sjálfbærra landbúnaðarhátta. Í þessum kúrsi voru ræddar afleiðingar af þeim breytingum sem eru að eiga sér stað og af mögulegum frekari breytingum í útbreiðslu og stofnstærðum norðlægra smádýra. Áhugasamir geta kynnt sér helstu niðurstöður sem hópurinn á námskeiðinu tók saman í lok þess; sjá HÉR. Það er mjög fróðleg lesning.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image