Í september leiddi Landbúnaðarháskólinn umsókn sem send var inn til LIFE áætlunarinnar, sem er umhverfis- og loftslagsáætlun Evrópusambandsins, í nánu samstarfi við Landgræðsluna, Náttúrufræðistofnun, Umhverfisstofnun, Hafrannsóknarstofnun, Fuglavernd, Samband íslenskra sveitarfélaga og the Royal Society for the Protection of Birds. Umsóknin var sú fyrsta sem send er frá Íslandi innan undiráætlunarinnar 'Náttúra og líffræðilegur fjölbreytni' og var umbeðin styrkupphæð yfir milljarð íslenskra króna. Verkefnið sem sótt var um styrk fyrir snýr að endurheimt votlendis og tengdra vistkerfa á þremur svæðum á landinu, nánar tiltekið á vesturlandi, austurlandi og suðurlandi.
Í október fengum við svo til okkar góðan hóp gesta frá umhverfisnefnd skoska þingsins ásamt fulltrúum Royal Society for the Protection of Birds og Fuglavernd. Skotarnir voru hér á landi til þess að taka þátt í Hringborði Norðurslóða og vildu fræðast um LIFE umsóknina, endurheimt vistkerfa og starfsemi skólans. Vel var tekið á móti hópnum og eftir gott spjall í aðalbyggingu háskólans var farið á gömlu torfuna á Hvanneyri. Ljóst er að við eigum mikið sameiginlegt með skotum og þar liggja mörg tækifæri til samstarfs.