Skeifudagurinn fer fram við hátíðlega athöfn Sumardaginn fyrsta, 24. apríl kl 13 í hestamiðstöð skólans að Mið-Fossum.
Dagurinn hefst á opnunaratriði og ávarpi áður en að úrslit verða riðin í Gunnarsbikar. Að lokinni verðlaunaafhendingu er boðið uppá sýningaratriði áður en kynning er á nemendum í Reiðmennsku III og tamningatrippum þeirra sem keppa um Morgunblaðsskeifuna. Dagurinn dregur nafn sitt af þeim verðlaunum sem Morgunblaðið hefur veitt síðan 1957. Þá verður annað sýningaratriði áður en nemendur ljúka dagskránni í reiðhöllinni að Mið-Fossum með skrautreið.
Verðlaunaafhending, kaffisala og stóðhestahappadrætti fer að þessu sinni fram í Ásgarði, aðalbyggingu LbhÍ á Hvanneyri og er öllum boðið að koma saman í matsal á fyrstu hæð að lokinni dagskrá í reiðhöllinni. Nemendur í búfræði standa fyrir sölu á kaffiveitingum í fjáröflunarskyni.
Opið hús á Hvanneyri mill 16 og 18
Í lok Skeifudagsins gefst áhugasömum einnig kostur á því að skoða aðalbygginguna á Hvanneyri og nemendagarða. Öll velkomin á Hvanneyri Sumardaginn fyrsta!