Dr. Sjöfn Vilhelmsdóttir tók við stöðu forstöðumanns Landgræðsluskólans í byrjun maí mánaðar. Landgræðsluskólinn er hluti af GRÓ Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu sem starfar undir merkjum Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO. Skólinn er samstarfsverkefni utanríkisráðuneytisins, Landbúnaðarháskóla Íslands og Landgræðslunnar og er markmið hans að þjálfa sérfræðinga frá þróunarlöndum sem glíma við land- og jarðvegseyðingu og neikvæð áhrif loftslagsbreytinga.
Sjöfn hefur víðtæka reynslu af þróunarsamvinnu, bæði í Afríku og á Íslandi fyrir opinbera aðila og frjáls félagasamtök á sviði þróunarmála. Sjöfn starfaði sem forstöðumaður við stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands frá árinu 2015 til 2020. Sjöfn hefur unnið að rannsóknum á trausti í stjórnmálum, félagsfræði og lýðræði ásamt kynja- og þróunarfræðum. Hún hefur kennt og leiðbeint fjölmörgum nemum við Landgræðsluskólann síðan 2008 og setið í fagráði skólans síðan 2016. Sjöfn er með doktorsgráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í alþjóðafræðum frá Josef Korbel School of International Studies, University of Denver og B.A gráðu í stjórnmálafræði frá HÍ. Sjöfn tekur við af dr. Hafdísi Hönnu Ægisdóttur sem hefur verið forstöðumaður síðan 2008. Ásamt því að bjóða Sjöfn innilega velkomna til starfa þá þökkum við Hafdísi Hönnu kærlega fyrir hennar góðu störf síðastliðin tólf ár.