Samstarf um Orkídeu endurnýjað

Dóra Björk Þrándardóttir nýsköpunarstjóri hjá Landsvirkjun, Bjarni Guðmundsson, framkvæmdastjóri SASS, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands og Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Orkídeu.

Samstarf um Orkídeu endurnýjað

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS), Landsvirkjun og Landbúnaðarháskóli Íslands hafa undirritað samning um að halda áfram að styðja Orkídeu, samstarfsverkefni um orkutengda nýsköpun í matvælaframleiðslu og líftækni á Suðurlandi. Samningurinn gildir til ársloka 2027. Orkídea, sem Landbúnaðarháskólinn er einn stofnaðila að, hefur náð miklum árangri í sókn í bæði Evrópustyrki og innlenda samkeppnissjóði með ýmsum fyrirtækjum og frumkvöðlum á Suðurlandi.

Á síðustu fjórum árum hafa Orkídea og samstarfsaðilar tryggt sér styrki upp á um einn milljarð króna, meðal annars í gegnum verkefnin Terraforming LIFE og Value4Farm. Orkídea hefur því stutt fjölmörg frumkvöðlafyrirtæki á Suðurlandi og þannig greitt leiðir fjölmargra nýsköpunartækifæra á svæðinu. Núverandi starfsmenn Orkídeu eru þrír, en vegna umfangs verkefna og væntanlegra styrkja er gert ráð fyrir fjölgun starfsfólks.

Guðlaugur Þór Þórðarson, ráðherra, fagnar því að samningurinn hafi verið endurnýjaður og leggur áherslu á mikilvægi samvinnu. Ríkarður Ríkarðsson hjá Landsvirkjun lofar árangur verkefnisins og möguleikana sem felast í samstarfinu og Bjarni Guðmundsson hjá SASS lýsir verkefninu sem gríðarlega mikilvægu fyrir sunnlenskt samfélag.

Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskólans, leggur áherslu á möguleikana sem liggja í auknu samstarfi um nýsköpun og hátæknimatvælaframleiðslu:

Orkídea er öflugur samstarfsvettvangur á sviði orkutengdrar matvælaframleiðslu og hringrásarhagkerfis á Suðurlandi sem Landbúnaðarháskóli Íslands er stoltur stofnaðili að. Samstarfsvettvangurinn hefur þegar skilað fjölda árangursríkra umsókna í innlenda og erlenda sjóði og Landbúnaðarháskóli Íslands sér mikil tækifæri í auknu samstarfi við hagaðila á svæðinu á sviði matvælaframleiðslu og líftækni. Sóknartækifæri til framtíðar eru í aukinni nýsköpun og rannsóknum á sviði hátæknimatvælaframleiðslu þar sem fræðasamfélagið og framleiðendur geta tekið höndum saman til sóknar fyrir íslenskt samfélag.

Frétt á vef Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis: https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2024/12/12/Samstarf-um-Orkideu-endurnyjad/

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image