Samningur um samstarf milli Háskólans á Bifröst og Landbúnaðarháskóla Íslands

Rektorar Háskólans á Bifröst og Landbúnaðarháskóla Íslands undirrituðu í dag rammasamning um samstarf skólanna. Markmið samningsins er að stuðla að auknu samstarfi um kennslu og rannsóknir og styrkja þannig báða skólana. Þannig verði stefnt að nánu þverfaglegu samstarfi um námsleiðir, m.a. í formi samvinnu um námskeið, sameiginlegra námsleiða og prófgráða.  Skólarnir vilja með nánara samstarfi leggja sitt af mörkum til þess að stuðla að framförum í atvinnulífi og betra samfélagi með því að bjóða fram hagkvæma gæðamenntun.  Skólarnir eru sérstaklega meðvitaðir um þýðingu sína fyrir atvinnulíf og samfélag á Vesturlandi og almennt í hinum dreifðu byggðum Íslands.

Einnig undirrituðu rektorarnir sérstakt samkomulag um sameiginleg námskeið í matvælatengdum greinum sem m.a. eru hluti af námi í matvælarekstrarfræði við Háskólann á Bifröst og valgreinar við Landbúnaðarháskóla Íslands.  Matís mun annast kennslu á nokkrum þessara námskeiða en önnur verða kennd af sérfræðingum í fremstu röð á viðkomandi sviðum. 

Með samvinnu milli skólanna eru þeir að nýta styrkleika hvors annars og tengja fræðasvið sín saman til þess að sækja fram með þverfaglegum greinum og svara með því  betur þörfum atvinnulífsins og nemenda.  Skólarnir stefna á að auka samstarf sitt enn frekar í framtíðinni og horfa m.a. til möguleika sviði rannsókna, vöruþróunar og nýsköpunar á öllum sviðum atvinnulífs þar sem unnið er með matvæli.  Fyrirsjáanlegt er að aukin samkeppnishæfni og fagmennska í allri virðiskeðju matvæla, allt frá frumframleiðslu til endanlegrar sölu innan lands eða utan verða sífellt mikilvægari viðfangsefni.  Skólarnir vilja með samstarfi sínu gera sitt til að efla þetta mikilvæga og víðtæka svið íslensks atvinnulífs.  

Meðfylgjandi mynd tók Björn Þorsteinsson við undirritunina. Ágúst Sigurðsson rektor LbhÍ (t.v.) og Vilhjálmur Egilsson rektor Háskólans á Bifröst.

 

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image