Samanburður á rekstrarhagkvæmni mjólkurframleiðslu á Íslandi með íslenskum og erlendum mjólkurkúakynjum

Út er komið rit nr. 174 í ritröð LbhÍ sem fjallar um samanburð á rekstrarhagkvæmni mjólkurframleiðslu á Íslandi með íslenskum og erlendum mjólkurkúakynjum

Samanburður á rekstrarhagkvæmni mjólkurframleiðslu á Íslandi með íslenskum og erlendum mjólkurkúakynjum

Er mögulegt að hagræða í mjólkurframleiðslu á Íslandi?

Jón
Hjalti Eiríksson, Þóroddur Sveinsson og Jóhannes Sveinbjörnsson frá deild Ræktunar og fæðu ásamt Daða Má Kristóferssyni frá Háskóla Íslands og Julie Clasen frá SimHerd A/S í Danmörku hafa síðustu mánuði unnið að mati á mögulegri hagræðingu í mjólkurframleiðslu á Íslandi með innflutningi á nýjum mjólkurkúakynjum. Niðurstöðurnar koma fram í Riti LbhÍ nr. 174.

Íslenskar mjólkurkýr hafa minni meðalafurðir en helstu mjólkurframleiðslukyn nágrannalandanna og því hefur ítrekað verið stungið upp á innflutning annars kúakyns sem leið til að gera kúabúskap á Íslandi hagkvæmari. Í þessu verkefni voru íslenskar kýr bornar saman við norskar rauðar kýr (NRF), norrænar (sænskar/danskar) rauðar kýr, norrænar Holstein kýr og Jersey kýr. Niðurstöðurnar benda til að framlegð kúabúskapar í landinu gæti aukist um 3,3 milljarða á ári ef öllum kúnum væri skipt út fyrir norrænar rauðar kýr og litlu minna ef Holstein eða NRF kýr yrðu fyrir valinu. Til að ná þessari hagræðingu myndi kúm í landinu fækka um nálægt tíu þúsund á meðan framleiðslunni væri haldið svipaðri.

Íslenski mjólkurkúastofninn er lítið skyldur öðrum mjólkurframleiðslukynjum og hefur því mikið gildi fyrir varðveislu erfðaauðlinda nautgripa. Ef annað kúakyn tekur yfir mjólkurframleiðslu á Íslandi þarf að tryggja varðveislu óblandaðra gripa af íslenska kyninu.

Fóðurmatskerfið NorFor og SimHerd hermilíkanið voru notuð til að meta hvernig rekstur kúabús á Íslandi væri með mismunandi kúakyn. Niðurstöður NorFor líkansins bentu til þess að fóðrunarkostnaður með íslensku fóðri væri mestur fyrir íslenskar kýr, 49,7 kr. á kg orkuleiðréttrar mjólkur, en lægstur fyrir Jersey kýr, 42,3 kr á kg. SimHerd líkanið líkir eftir 60 kúa kúabúi og tekur til fleiri þátta en fóðrunar og afurða, svo sem heilsufars, lifunar kálfa og frjósemi kúnna. Niðurstöður á rekstri þessa bús voru skoðað út frá þremur sviðsmyndum, óbreyttum fjölda kúa, óbreyttu fjósplássi og óbreyttri framleiðslu búsins. Við sama fjölda kúa er mest framlegð án ríkisstuðnings af búi með Holstein kýr, rúmum 28 milljónum hærri en með íslenskar kýr. Sé miðað við sama fjóspláss er mest framlegð með Jersey kúm en haldi búið sömu framleiðslu kæmu rauðar norrænar kýr best út með 8,3 milljóna aukningu á framlegð borið saman við íslenskar kýr. Einnig má reikna með minnkandi föstum kostnaði með afkastameiri kúm en hann er mjög háður nýtingu framleiðslutækja og þróun bústærðar og var ekki metinn í þessu verkefni.

Verðmæti nautkálfa og kúa til slátrunar væri meira með stærri kúm af NRF, norrænu rauðu eða Holstein kyni. Aftur á móti myndi fækkun kúa leiða til minni framleiðslu nautakjöts meðfram mjólkurframleiðslunni í flestum tilfellum. Mest framleiðsla á nautakjöti væri með NRF kúm miðað við niðurstöðurnar.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image