Safe Climbing hlýtur verðlaun Erasmus + um jöfn tækifæri til þátttöku. Hér eru f.v. Björgvin Eggertsson, Ágústa Erlingsdóttir og Guðríður Helgadóttir við veitinguna.

Safe Climbing hlýtur verðlaun

Ráðstefna um jöfn tækifæri hjá Erasmus plús var haldin í húsakynnum Menntaskólans í Kópavogi þar sem fjallað var um hvernig allir geta tekið þátt og hvernig gera má betur með því að læra af hvert öðru og vinna saman. Ágúst Hjörtur Ingþórsson sem stýrir landsskrifstofu Erasmus + á Íslandi opnaði ráðstefnuna og bauð í pontu Agnes Sarolta Fazekas sem fjallaði um aðgengi og jöfn tækifæri í alþjóðavæðingu og hvernig má yfirstíga þær hindranir sem upp kunna að koma. Agnes er doktorsnemi í félagsfræði við Eötvös Loránd University í Búdapest og sérfræðingur í málefnum Erasmus+ stúdenta og starfsfólks með fötlun.

Auk opnunarerinda var boðið uppá vinnustofur þar sem skipt var upp í hópa eftir skólastigum og fjallað um möguleika erasmus plús fyrir alla. Reynslu var miðlað og umræður sköpuðust í kjölfarið. Að loknum vinnustofum voru verkefni verðlaunuð sem þóttu skara framúr í því að jafna tækifæri til þátttöku í erasmus plús.

Safe Climbing hlýtur verðlaun

Verkefnið varð til þegar aðilar í skrúðgarðyrkjufaginu komu til Ágústu Erlingsdóttur brautarstjóra skrúðgarðyrkjubrautar við skólann, með þörf á að fræða og mennta aðila í trjáklifri sem vinna með keðjusagir og verkfæri við snyrtingu hærri trjáa. Aðilar voru að slasast og vinna í óöruggum aðstæðum og þörfin því brýn.

Erasmus+ verkefnið Safe Climbing snýst um að búa til aðgengilegt rafrænt námsefni fyrir kennslu og verklega þjálfun í trjáklifri (e. Arborist) sem nýtist þeim ýmist kenna trjáklifur eða eru að læra trjáklifur. Í verkefninu eru fjórar stofnanir/skólar, Landbúnaðarháskóli Íslands – starfsmenntadeild (Ísland), Vinnueftirlitið (Ísland), Kobenhavns Universitet – Skovskolen (Danmörk) og SGLS Postojna (Slóvenía). 

Kennsluefnið sem var framleitt í verkefninu er sett upp með aðgengi fyrir breiðan hóp fólks í huga. Það gengur út á að hafa lítinn texta og styðja hann með myndum, teikningum og myndböndum sem útskýra það sem fjallað er um í textanum. Algengt er að fólk sem glímir við námsörðugleika leiti í verklegt nám og varð það kveikjan að því að ákveðið var að taka þessa stefnu í uppsetningu á námsefninu.

Áfangalýsingar fyrir nám í faginu voru einnig skrifaðar, ásamt tillögum að því hvernig megi setja áfangana upp í fjarnámi. Fjarnám í áföngum að hluta eða öllu leiti getur auðveldað fjölda fólks að sækja sér menntun. Allt námsefni og annað tengt efni sem varð til í verkefninu er aðgengilegt, frítt, á heimasíðu þess og læsilegt bæði í snjalltækjum og tölvu auk þess sem hægt er að hlaða niður kennslubókum og eyðublöðum af ýmsu tagi sem gott er að hafa við höndina samhliða námi og vinnu.

Ágústa Erlingsdóttir brautarstjóri veitti verðlaununum viðtöku ásamt Björgvini Eggertssyni brautarstjóra skóg og náttúrubrautar og Guðríði Helgadóttur forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar. Við óskum öllum innilega til hamingju með verðlaunin og verður gaman að fylgjast með faginu þróast í framtíðinni. Trjáklifur fellur undir störf skrúðgarðyrkjunnar og skógtækna sem er starfsmenntanám kennt við skólann.

Hér er myndband frá ráðstefnu sem haldin var í Slóveníu á síðasta ári sem hluti af verkefninu.

https://www.youtube.com/watch?v=HkZtpNACiTk&t=9s

Heimasíða verkefnisins [safeclimbing.net]

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image