Unnið að uppsetningu rannsóknareita í grasmóum sem byrjuðu að hlýna eftir Suðurlandsskjálftann 2008. Ljósm. Bjarni Diðrik Sigurðsson.

Rannsóknir á áhrifum hlýnunar á íslensk vistkerfi

Image
Tveir doktorsnemar við mælingar í rannsóknareitum ForHot í Grændal í Ölfusi þar sem kortlagðir heitir reitir undir gróðurlendunum hafa verið til staðar frá a.m.k. 1966. Ljósm. Bjarni Diðrik Sigurðsson.

annsóknirnar nýta sér hinar einstöku aðstæður sem mynduðust eftir Suðurlandsskjálftann í maí 2008, þegar jarðhitakerfi í Ölfusi röskuðust þannig að berggrunnur hlýnaði allt í einu á nýjum svæðum sem áður höfðu verið köld, þannig að jarðvegur hlýnaði allt að fjórfalt frá því sem eðlilegt er í.

Nýlega kom út grein í hinu virta vísindariti Nature – Ecosystems and Evolution frá rannsóknum starfsmanna Landbúnaðarháskóla Íslands og erlendra samstarfsmanna á áhrifum hlýnunar á íslenska grasmóa á löndum Landbúnaðarháskólans á Reykjum í Ölfusi. Þeir Bjarni Diðrik Sigurðsson og Páll Sigurðsson, starfsmenn LbhÍ eru meðal höfunda, en einnig Edda S. Oddsdóttir og Gunnhildur Eva Gunnarsdóttir sem vinna hjá Skógræktinni og Landgræðslunni eru meðal höfunda.

Þarna hófust rannsóknir á áhrifum hlýnunarinnar á jarðveg og gróður árið 2011 í verkefninu ForHot. Til samanburðar voru svo settar upp rannsóknir á samskonar upphituðum grasmóum í Grændal í Ölfusi sem ekki röskuðust við Suðurlandsskjálftann og hafa hafa haft svona jarðhita-upphitun í a.m.k. 50 ár. Með þessu var hægt að bera saman „skammtíma“, eða um 5-8 ára, og langtíma, eða >50 ára, áhrif hlýnunar á náttúruleg vistkerfi. 

Nokkur fjöldi stýrðra rannsókna hefur farið fram í náttúrulegum vistkerfum víða um heim, þar sem jarðvegshiti hefur verið hækkaður. Lang flestar þeirra hafa bara staðið í fá ár og örfáar lengur en 10 ár. Engar aðrar rannsóknir í heiminum hafa getað borið saman áhrif hlýnunar á afmörkuðu svæði yfir svona langan tíma og hægt er á Reykjum í Ölfusi. Því eru niðurstöðurnar mjög áhugaverðar fyrir skilning okkar á áhrifum loftslagsbreytinga til lengri tíma.

Hlýnun hefur áhrif á nær alla líffræðilega ferla í jarðvegi, gróðri og smádýralífi.

„Í þessari rannsókn bárum við saman mæld áhrif af „skammtíma“ og „langtíma“ hlýnun á 128 mældar vistkerfisbreytur í íslenskum grasmóum, en hlýnunin var á bilinu +0.5 °C upp í +18 °C, sem er rúmlega fjórföldun á núverandi meðalárshita. Þar sem hlýnunin hafði verið viðvarandi í meira en 50 ár þá hafði starfssemi vistkerfisins breyst mikið miðað við „köld“ svæði, en náð nýju jafnvægi við hlýrri aðstæður. Sömu vistkerfi sem einungis höfðu orðið fyrir hlýnun í 5-8 ár sýndu samskonar viðbrögð við hlýnuninni, en oftast voru viðbrögðin sterkari eftir 5-8 ár en sem mældist eftir „langtíma“ hlýnun í >50 ár.“ Segir Bjarni Diðrik Sigurðsson prófessor við LbhÍ. Til dæmis sýndu 83 af 128 mælibreytum við +1 °C hlýnun slíkt „ofmat“ eftir 5-8 ára hlýnun. 

Þessar niðurstöður benda til þess að „venjulegar“ skammtíma rannsóknir þar sem vistkerfi eru hituð upp í fáein ár til að líkja eftir viðbrögðum við loftslagsbreytingum geti hugsanlega ofmetið áhrifin sem líklega verða í raun. Ástæðan er möguleiki lífvera og vistkerfisferla til að aðlagast nýjum aðstæðum, sem er vanmetinn í skammtíma rannsóknum.

Hinsvegar kom einnig fram í þessum rannsóknum að því meiri sem hlýnunin er, því meiri breytingar verða á íslenskri náttúru; einnig til lengri tíma litið.

Greinina má nálgast hér í heild sinni 

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image