Málþing um ræktun matvæla í þéttbýli og samrækt hringrásarframleiðsla

Ræktun matvæla í borgarumhverfi og samrækt hringrásarframleiðsla

Málþing um ræktun matvæla í borgarumhverfi og samrækt hringrásarframleiðslu var haldið á Hvanneyri í byrjun maí. Boðið var upp á spennandi erindi erlendra sérfræðinga sem sóttu skólann heim og fulltrúa íslenskra fyrirtækja sem eru að hasla sér völl á þessu sviði með nýsköpun og þróun að leiðarljósi.

Fyrst á mælendaskrá var Siv Lene Ganges Skar frá Noregi, en hún er rekstrarstjóri hjá norska fyrirtækinu Columbi farms og doktorsnemi við Landbúnaðarháskólann. Siv Lene hefur unnið að þróun samræktar sl. 12 ár og vinnur nú að þróun viðskiptahugmyndar um samrækt sem koma á upp í Belgíu, þar sem framleiða á lax og salat í hringrásarkerfi.

Prófessor emeritus Ranka Junge frá Tækniháskólanum í Zurich (Zurich University of Applied Sciences) sagði frá rannsóknum á sviði fiskeldis, samræktar og lóðréttrar ræktunar í Sviss. Hún nefndi nýsköpunarfyrirtæki og sagði frá vandamálum sem hefðu komið upp. Hún lagði áherslu á að sprotafyrirtæki hefðu möguleika á að ráða til sín starfsfólk með góðan bakgrunn og þekkingu.

Jihong Liu-Clarke prófessor og ábyrgðarmaður samstarfsverkefna Nibio við Kína kynnti helstu niðurstöður Evrópuverkefnisins (Horizon 2020) SiEUGREEN – Sino-European innovative green and smart cities þar sem áhersla var lögð á samfélagsþátttöku í ræktun matvæla.

Eftir kaffihlé þar sem boðið var upp á reyktan lax úr samræktarkerfi Nibio í Noregi og gestir ræddu framtíðarsamstarfstækifæri tóku fulltrúar íslenskra nýsköpunarfyrirtækja við keflinu.

Andri Guðmundsson frá Hárækt, betur þekkt sem VAXA í Reykjavík sagði frá ævintýralegum vexti fyrirtækisins. Það framleiðir salat, kryddjurtir og sprettur í hillukerfum þar sem notað er LED-ljós. Fyrirtækið hefur fengið góðar viðtökur markaðarins, selur í verslanir, til veitingastaða og á netinu og er nú annar stærsti framleiðandinn á Íslandi.

Hörn Halldórudóttir Heiðarsdóttir og Silja Jóhannesar Ástudóttir frá Ylur eru að undirbúa byggingu hátæknigróðurhúss við Þeistareyki sem mun nýta orku beint frá jarðvarmavirkjun. Unnin hefur verið þarfagreining í samstarfi við Wageningen háskólann í Hollandi sem dró fram helstu möguleika á Íslandi til aukinnar ylræktar. Verkefnið er afar spennandi og verður spennandi að fylgjast með næstu skrefum.

Ragnar Ingi Danner frá Geo Salmo sagði frá öðru spennandi verkefni sem unnið er að í Þorlákshöfn. Það byggir á sama grunni og verkefni Columbi farms sem nefnt var hér að ofan og snýr að því að koma upp laxeldi á landi og nýta affallsvatnið meðal annars til framleiðslu á salati.

Sigurður Pétursson frá Lax-Inn fræðslumiðstöð sagði frá uppbyggingu fiskeldis á Íslandi og lagði áherslu á að framleiðsluverðmætin í fiskeldi eru marktæk stærð í útflutningi. Út­flutn­ingsverðmæti eldisaf­urða voru um 5% af heild­ar­verðmæti alls vöru­út­flutn­ings frá Íslandi á síðasta ári og um 12% af heild­arút­flutn­ings­verðmæti sjávarútvegs.

Ragnheiður I. Þórarinsdóttir rektor Landbúnaðarháskólans dró niðurstöðurnar málþingsins saman í nokkrum orðum í lokin.

Ljóst er að tækniþróunin er hröð og mikil tækifæri til aukinnar matvælaframleiðslu hérlendis. Hér skipa einstaklingar með frumkvæði stóran sess og mikilvægt að ná saman sterku teymi með góða þekkingu á þeim lykilsviðum sem um ræðir. Þá þurfa stjórnvöld að styðja við nýsköpun, þróun, rannsóknir og kennslu. Landbúnaðarháskóli Íslands leggur áherslu á að taka virkan þátt í verkefnunum framundan, auka hágæða framleiðslu og skapa ný tækifæri til matvælaframleiðslu.

Myndir frá málþinginu

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframsleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image