Ræða rektors LbhÍ frá brautskráningu júní 2015

Kæru útskriftarnemendur, aðstandendur og aðrir gestir.

Landbúnaðarháskóli Íslands var stofnaður 2005 og er því í núverandi skipulagi 10 ára. Saga forvera hans teygir sig aftur marga áratugi og þess elsta, Bændaskólans á Hvanneyri, 126 ár.

Eins og samfélagi okkar er háttað stöndum við alltaf á tímamótum. Hugmyndafræði og heimsmynd hvers tíma hefur sín einkenni. Einu sinni tóku menn svo til orða að hægt væri að ganga menntaveginn og gerast fullnuma í einhverju fagi. Þannig talar enginn lengur.

Lengi framan af var ekki krafist sérstakrar menntunar til margra starfa í þjóðfélaginu en slíkum störfum hefur farið fækkandi í tímans rás. Í þjóðfélaginu eru víðast hvar gerðar skipulegar kröfur til hæfis starfsmanna til að gegna tilteknum störfum eða hlutverkum.

Það sama gildir um fyrirtæki og stofnanir. Í vaxandi mæli þurfa þær að afla sér starfsleyfa og viðurkenninga, og beygja sig undir lög, regluverk og eftirlit af ýmsum toga. Framhaldsskólar og ekki síst háskólar hafa ekki farið varhluta af þessari þróun.

Með lögum um háskóla nr. 63/2006 var sleginn nýr tónn í þessum efnum og skólar þurfa nú að afla sér viðurkenningar sem byggjast á fjölmörgum alþjóðlegum viðmiðum um háskólastarfsemi. Jafnframt er í lögunum gert ráð fyrir því að viðurkenning háskóla sé bundin við tiltekin fræðasvið.

Í kjölfar lagasetningarinnar einhenti Landbúnaðarháskólinn sér í þetta verkefni eins og lög gerðu ráð fyrir og fékk viðurkenningu á fræðasviðum sínum árið 2007 og 2008. Í kjölfarið settu menntamálayfirvöld upp gæðaráð íslenskra háskóla sem á að fylgjast með því hvernig skólarnir standa sig. Þannig fór skólinn í gegnum stofnanaúttekt 2012-2013 sem hann stóðst og fékk traust ráðsins á þeim gæðum sem hann stendur fyrir. Skólinn fékk ábendingar til úrbóta á nokkur atriði sem öll má rekja til takmarkaðra fjárveitinga, og er þannig um leið skýr ábending til stjórnvalda um að skólinn er vanfjármagnaður. Önnur grundvallarábending snerti stærð skólans og nauðsyn þess að hann efldi samstarf eða hugaði að samruna við aðra háskóla.

Samruni háskóla hefur gengið eins og eldur í sinu um Evrópu á liðnum árum og hefur því safnast upp töluverð reynsla af slíkum aðgerðum. Í vor kom út skýrsla á vegum Evrópusamtaka háskóla þar sem þessi reynsla er dregin saman í eins konar leiðbeiningar um hvernig standa skuli að nánara háskólasamstarfi eða samruna. Megininntak leiðbeininganna má draga saman í nokkra skýra punkta, en þeir helstu eru þessir:

  • Gera þarf ítarlega greiningu á kostum og göllum þeirra samstarfs- og samrunahugmynda sem um er fjallað og til þess þarf bæði tíma og fjármuni en ekki síður kunnáttufólk í háskólarekstri.
  • Starfsmenn og stjórnir viðkomandi skóla þurfa að hafa aðkomu að ferlinu frá upphafi. Virða þarf sjálfstæði háskóla og ábyrgð á eign málum eins og lög gera ráð fyrir. Ferillinn þarf að vera öllum gegnsær og ljós frá upphafi og honum þarf að tengjast öflug upplýsingaveita til starfsmanna og annarra hagsmunaaðila.  Samruni sem þvingaður er fram gegn vilja stjórnenda og starfsmanna skóla er dæmdur til að verða mjög örðugur eða jafnvel mistakast.
  • Akademískur eða faglegur ávinningur þarf að vera meginmarkmið í skólasamruna. Fjárhagslegur sparnaður eingöngu hefur ekki reynst farsælt eina markmið samruna.
  • Ef hægt er að ná fram sömu markmiðum með samstarfi og samruna þá er samstarf að jafnaði ódýrari og fýsilegri kostur, því að vel heppnaður samruni kostar mikið í undirbúningi og framkvæmd. Undirbúningur samruna þarf að fela í sér möguleika á að hætt sé við ferlið ef niðurstaða greiningarvinnu reynist neikvæð.
  • Tryggja þarf að ný stofnun byggi á raunhæfri fjármögnun til að standa undir væntingum og skyldum.

Ég held að við Íslendingar getum margt af þessum leiðbeiningum lært og ég mun tala fyrir því að við tökum mark á þeim í þeim hrókeringum sem menn kunna að reyna í íslenska háskólakerfinu þar sem okkar skóli kemur við sögu.

Háskólasamfélagið er í eðli sínu alþjóðlegt, opið, leitandi og gagnrýnið samfélag sem hefur það að markmiði að varðveita, miðla og skapa þekkingu . Til þess að háskóli geti lifað verður hann að hafa fjárhagslega og félagslega burði til að skapa aðstæður þar sem starfsemi með þessa eiginleika fær þrifist.

Það þarf líka að uppfylla þau skilyrði að starfsmenn og nemendur skólans geti staðið félögum sínum við aðra skóla jafnfætis bæði innanlands og erlendis. Þess vegna eru einkenni háskóla akademískt frelsi og akademísk ábyrgð starfsmanna, auk þess sem háskólum er tryggt sjálfstæði í eigin málum í lögum um háskóla.

Mælikvarðarnir á hvernig til tekst eru svo einmitt teknir fram í áðurnefndum gæðaúttektum sem byggja á alþjóðlegum viðmiðum. Þess vegna þarf að taka slíkar úttektir mjög alvarlega og þær ábendingar sem út úr þeim koma. Þess vegna er líka vonlaust að reka háskóla eftir heimatilbúnum viðmiðum. Sé það gert bendir það til þess að skólinn sé að einhverju leyti úr tengslum við fræðasamfélagið að öðru leyti og hann mun ekki standast úttektir.

Það þarf þó meira til en að háskóli skapi tiltekin starfsskilyrði innan sinna veggja bæði fyrir starfsfólk og nemendur. Samfélagið þar sem skóli er staðsettur þarf líka að skapa honum skilyrði til að geta rækt hlutverk sitt. Skólarnir verða að búa við raunhæfa fjármögnun og samfélögin sem hýsa skólana þurfa að virða sjálfstæði skólanna og vera þannig úr garði gerð að skólarnir geti laðað að sér starfsmenn og nemendur á grundvelli þess að þar sé eftirsóknarverður búsetukostur og góðir samfélagslegir innviðir í samgöngu-, mennta-, heilbrigðis- og menningarmálum. Eitt átakamál sem nú er á döfinni í Borgarbyggð er framtíð grunnskólans á Hvanneyri sem hefur einmitt skipt LbhÍ miklu sem liður í búsetugæðum staðarins til að laða að nemendur og kennara.

Ég hef nú dvalið við háskólaumræðu og nú kunna einhverjir að hugsa til þess að skólinn er líka með starfsmenntanám á framhaldsskólastigi og þegar við lítum yfir hópinn sem er að útskrifast hér í dag þá eru búfræðingarnir stærsti hópurinn. Gott búfræðinám fyrir íslenskar aðstæður er háð því að hér sé hægt að mennta búvísindafólk og stunda rannsóknir og þróun í búvísindum og skyldum greinum. Ef háskólanámsins nyti ekki við myndi grundvöllur búfræðikennslunnar bresta. Í litlu landi eins og okkar er ekkert eðlilegra en að hýsa þessi tvö námsstig innan sömu stofnunar og nýta aðstöðu mannafla og umgjörð sameiginlega. Það er einnig þannig að búfræðinemarnir á Hvanneyri mynda einn stöðugasta kjarnann fyrir staðarsamfélagið og mannvistina í skólanum.

Það skólaár sem nú er að líða hefur verið átakaár og ár óvissu og biðstöðu. Ágúst Sigurðsson, fráfarandi rektor, hafði unnið að því um skeið með menntamálaráðherra og rektor Háskóla Íslands að undirbúa ferli samruna LbhÍ og Háskóla Íslands. Þau áform runnu út í sandinn vegna andstöðu sveitarstjórnamanna í Borgarbyggð, þingmanna úr NV kjördæmi og Bændasamtakanna. Ágúst lauk svo sínum embættistíma 1. ágúst sl. án þess að auglýst hefði verið eftir nýjum rektor, og sá sem hér stendur var þá settur í hans stað. Staða rektors var síðan auglýst með umsóknarfresti í byrjun desember sl. Í upphafi yfirstandandi árs, á meðan valnefnd var enn að vinna úr umsóknum, tilkynnti menntamálaráðherra um skipan nefndar sem skyldi hafa það verkefni að kanna fýsileika samstarfs, samrekstrar eða samruna 3ja lítilla háskóla í NV kjördæmi, þ.e. Bifrastar, Hóla og LbhÍ, undir forystu þeirra sem áður höfðu stöðvað samrunaáform LbhÍ og HÍ. Þetta verkefni má segja að hafi komið stjórnendum og starfsmönnum að minnsta kosti Hóla og LbhÍ algerlega í opna skjöldu. Nefndin hefur ekki enn lokið störfum en mun væntanlega gera það nú síðar í júní.

Síðasta skólaár var einnig erfitt því að við neyddumst til að fara í hagræðingar og uppsagnir til að koma stofnuninni inn fyrir ramma fjárlaga. Þá er búrekstur skólans í uppstokkun. Sauðfjárbúið á Hesti verður nú leigt út til ungra vel menntaðra búrekstraraðila sem eru bæði um þessar mundir að ljúka MS prófi í búvísindum, en markmiðið er að reka fyrirmyndarbú sem á að veita skólanum aðstöðu til kennslu og rannsókna í sauðfjárrækt. Kúabúið á Hvanneyri verður líka endurskipulagt með það að markmiði að efla nýtingu þess í kennslu og rannsóknum þar sem nýsköpun og sjálfbærni verður höfð að leiðarljósi.

Þá stendur yfir ferli friðlýsingar á gömlu húsatorfunni á Hvanneyri og er það í fyrsta sinn sem húsaklasi ásamt aðliggjandi búsetulandslagi er tekinn til friðlýsingar á Íslandi. Ferli málsins er til lokameðferðar í forsætisráðuneytinu. Í rökstuðningi friðlýsingarskilmála stendur:

Gamla bæjartorfan á Hvanneyri er merkilegt búsetulandslag með mikið menningarsögulegt gildi. Sem slík býr hún yfir sérstökum umhverfisgæðum sem óvíða eru til staðar í dreifbýli hér á landi, sem m.a. felast í samspili búsetuminja og merkra bygginga við ákveðnar landslagsheildir. Þessi gæði eru bundin staðsetningu húsanna í umhverfi sínu, innbyrðis afstöðu þeirra og þeim rýmum sem þau mynda á milli sín að ógleymdri byggingarlist húsanna.

Af þessum gömlu húsum hefur Halldórsfjós nú fengið framtíðarhlutverk sem safnbygging fyrir Landbúnaðarsafn Íslands. Þá hafa einkaaðilar, þ.e. hópur ungs fólks í nærsamfélaginu, svarað auglýsingu um framtíðarnýtingu annarra bygginga í gömlu húsatorfunni með það í huga að reka þar ferða- og veitingaþjónustu, matarsmiðju, listasmiðju og aðra nýsköpunarstarfsemi. Þessi starfsemi er líkleg til að geta tengst fagviðfangsefnum skólans á ýmsan hátt. Til þess að hrinda þessum áformum í framkvæmd þarf að afla formlegra heimilda til útleigu ríkiseigna, endurnýja brunahönnun húsa og fleira í þeim dúr.

Ný afstaðin er endurskoðun námskrár búfræðinnar og kennarastöður í búfræðinni hafa verið mannaðar. Um síðustu áramót kom nýr brautarstjóri til starfa, Ólöf Ósk Guðmundsdóttir, og 1. ágúst n.k. gerum við ráð fyrir að nýr kennari til viðbótar verði kominn til starfa að brautina.

Staða lektors á umhverfisskipulagsbraut var auglýst nú á vormánuðum og valnefnd mun innan skamms hefja störf og gera tillögu um þann sem skal boðin staðan. Þessa dagana er verið að ganga frá ráðningu lektors í líffræði búfjár að auðlindadeild. Charlotta Oddsdóttir dýralæknir varð hlutskörpust umsækjenda um stöðuna.

Þá liggur fyrir að endurnýja stefnumörkun fyrir skólann og endurskoða reglur og skipurit, þar sem áhersla verður lögð á að auka á samstarf við aðrar stofnanir og skóla innan lands og utan, með það að markmiði efla rannsóknir og kennslu í landbúnaði og landnýtingu með sjálfbærni nýtingar og verndunar auðlinda að leiðarljósi.

Ég vil að lokum þakka starfsfólki störfin í vetur og nemendum samfylgdina. Við eigum öll sameiginlegt áhugamál í lífinu og landinu. Um það stöndum við vörð og þau faglegu og siðferðilegu gildi sem til heyra.

En kæru útskriftarnemar. Í dag skulum við gleðjast. Í dag skuluð þið upp skera. Þið stigið nú áfram ykkar spor inn í framtíðina. Megi gæfan fylgja ykkur á þeirri braut. Við starfsmenn Landbúnaðarháskóla Íslands færum ykkur okkar innilegustu hamingjuóskir.

Ég læt þá þessum orðum lokið og við göngum til dagskrár og fundarstjóri tekur nú við að nýju.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image