Ráðherra landbúnaðar- og byggðamála í Slóvakíu sótti Reyki heim og fræddist um starfsemi skólans með áherslu á garðyrkjunámið og nýtingu jarðvarma. Með í för var u.þ.b. 35 manna hópur framámanna í landbúnaði og stjórnkerfi Slóvakíu ásamt fulltrúum hagsmunaaðila. Hópurinn nýtti tímann vel og skoðaði ýmis fyrirtæki á Íslandi og kynnti sér nýtingu jarðvarma m.a. í landbúnaði og fiskeldi.
Guðríður Helgadóttir starfsmenntanámsstjóri og Guðmunda Smáradóttir mannauðs- og gæðastjóri tóku á móti hópnum í garðskálanum og fræddi Guðríður gesti um starfsemi garðyrkjudeildanna og sýndi aðstöðuna m.a. rannsóknagróðurhúsið og bananahúsið. Góðar umræður spunnust og var mikið spurt og augljóst að mikill áhugi er fyrir reynslu á sviði nýtingar jarðvarma til ræktunar.