Orkusetur landbúnaðarins á Hvanneyri: Stefnt að tilraunaframleiðslu á lífrænu eldsneyti

Orkusetur landbúnaðarins sem starfrækt er við Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) hefur það sem markmið að vinna að heildarstefnumótun varðandi framleiðslu lífrænnar orku úr þeim lífmassa sem aðgengilegur er í íslenskum landbúnaði.

 

Eiður Guðmundsson er verkefnastjóri Orkusetursins. Hann segir að til að slík stefna verði vænleg til árangurs þurfi hún að vera afsprengi samstarfs milli sveitarfélaga og bændasamfélagsins. Sveitarfélögum eða samtökum þeirra beri að setja fram stefnu sína í úrgangsmálum, í svæðisáætlunum um meðhöndlun
úrgangs. Hluti af þeim lífmassa sem aðgengilegur er til orkuvinnslu er lífrænn úrgangur frá heimilum og rekstri. Sá úrgangur er á ábyrgð sveitarfélaganna hvað það varðar að til séu lausnir til að meðhöndla hann samkvæmt kröfum.

Skili sér aftur í landbúnað eða landgræðslu
„Megnið af þessum lífmassa að viðbættum húsdýraskít er upprunninn í landbúnaði og það sem eftir verður að lokinni orkuvinnslu á að sjálfsögðu að skila sér aftur í landbúnað eða til landgræðslu. Þannig getum við skilað verðmætum næringarefnum aftur til náttúrunnar,“ segir hann. Fosfór er mjög takmörkuð auðlind og því segir Eiður lífsnauðsynlegt að halda vel utan um þann fosfór sem skilar sér með sláturúrgangi inn í þessa vinnslu. „Það er að mínu mati eðlilegt að skoða hvort stefna og framtíðarsýn um nýtingu lífmassa til orkuframleiðslu og áburðar eigi ekki að vera hluti af svæðisáætlunum um meðhöndlun úrgangs.“

Hann segir að Orkusetur landbúnaðarins hafi það sem meginmarkmið að beita sér fyrir stefnumótun á þessu sviði. Fyrsta skrefið í slíkri stefnumótunarvinnu gæti verið samstarfsverkefni Orkuseturs Landbúnaðarins, einstakra sveitarfélaga eða svæðissamtaka sveitarfélaga og Bændasamtakana eða búnaðarfélags á sama svæði
og Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins. Reynslan af því verkefni yrði síðan nýtt til frekari stefnumótunarvinnu á landsvísu.

Hvatt til aukins samstarfs
„Orkusetur landbúnaðarins hefur einnig á stefnuskrá sinni að koma upp aðstöðu til tilraunaframleiðslu á lífrænu eldsneyti á Hvanneyri. Sú tilraunaframleiðsla yrði m.a. nýtt til verkþjálfunar, en verkreynsla á þessu sviði er lítil hér á Íslandi enn sem komið er. Áætlað er að það verði mögulegt að stunda rannsóknir í þessar aðstöðu og nýta hana til kennslu við Landbúnaðarháskólann,“ segir Eiður og hvetur samtök bænda og sveitarfélög til að auka samstarfs sitt í þessum málaflokki, þannig er líklegast að sá árangur sem væntingar eru vissulega um náist. / Frétt í Bændablaðinu fimmtudaginn 23. maí 2013.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image