Opið fyrir skráningu í Keppnisnám Reiðmannsins

Keppnisnám í Reiðmanninum er nýtt nám á vegum Endurmenntunar Landbúnaðarháskóla Íslands fyrir alla sem vilja öðlast aukna færni í að undirbúa bæði sjálfan sig og hestinn fyrir þátttöku í keppnum. Námið er einstaklingsmiðað og hentar jafnt þeim sem eru að stíga sín fyrstu spor í keppnisreiðmennsku sem og reynslumiklum keppendum sem vilja bæta árangur sinn í keppnum og þjálfa hestinn sinn í keppni.

Námskeiðið er opið öllum sem náð hafa 18 ára aldri og með góða reynslu af hestamennsku. Ekki er skilyrði að hafa farið í gegnum nám í Reiðmanninum en m.a. er tekið tillit til reynslu umsækjanda af hestamennsku/reiðmennsku, hvort viðkomandi hafi sótt nám í reiðmennsku og hver hestakostur er. 

Fjögur námskeið eru í boði vorið 2025: 

  • Hjá Dreyra á Akranesi, reiðkennari Ylfa Guðrún Svafarsdóttir:
    Verklegar helgar: 15.-16. febrúar, 8.-9. mars, 12.-13. apríl og lokahelgi á Mið-Fossum 2.-4. maí.
    Verkleg kennsla á þriðjudagseftirmiðdögum: 4. febrúar, 25. febrúar, 18. mars og 22. apríl.
  • Hjá Sleipni á Selfossi, reiðkennari Hjörvar Ágústsson:
    Verklegar helgar: 1.-2. febrúar, 15.-16. febrúar, 8.-9. mars og lokahelgi á Mið-Fossum 2.-4. maí.
    Verkleg kennsla á þriðjudagseftirmiðdögum: 25. febrúar, 25. mars, 1. apríl og 15. apríl.
  • Hjá Skagfirðingi á Sauðárkróki, reiðkennari Finnbogi Bjarnason:
    Verklegar helgar: 15.-16. febrúar, 8.-9. mars, 29.-30. mars og lokahelgi á Mið-Fossum 2.-4. maí.
    Verkleg kennsla á fimmtudagseftirmiðdögum: 13. febrúar, 6. mars, 27. mars og 10. apríl.
  • Hjá Spretti í Kópavogi, reiðkennari Snorri Dal:
    Verklegar helgar: 18.-19. janúar, 1.-2. febrúar og lokahelgi á Mið-Fossum 2.-4. maí.
    Verkleg kennsla á þriðjudögum kl. 8-15: 28. janúar, 18. febúar, 11. mars, 1. apríl, 8. apríl og miðvikudaginn 9. apríl.

Markmið

Markmið námsins er að þátttakendur öðlist aukna færni í að undirbúa og þjálfa bæði sjálfan sig og hestinn fyrir þátttöku í keppnum og sýningum, sem og að öðlast færni í markvissri  markmiðasetningu við þjálfun keppnishesta með áherslu á þær æfingar sem hafa hvað mest nytsamlegt gildi fyrir keppnisþjálfun.

Áhersla er lögð á að geta riðið hestinum í réttri líkamsbeitingu með léttleikandi samband til afkasta. Jafnframt er lögð áhersla á líkamsbeitingu, orkustig, söfnun, fjaðurmagn og rými hestsins. Á námskeiðinu öðlast þátttakendur einnig færni í að skynja andlegt jafnvægi, samstarfsvilja og einbeitingu hestsins við mikið þjálfunarálag.

Námið er einstaklingsmiðað og er kennsla miðuð út frá markmiðum og getu hvers og eins.

Um námið

Námið er metið til 6 eininga á framhaldsskólastigi (fein). Einingagjöfin er háð því að nemendur hafi sótt 90% verklegra tíma í staðarnámi og standist námsmat. Að baki hverrar einingar er gert ráð fyrir 3 vinnudögum nemanda, hvort sem um er að ræða fyrirlestra, verklega tíma eða heimanám.

Námskeiðið er kennt á fjórum verklegum helgum, auk fjögurra eftirmiðdaga í miðri viku á tímabilinu janúar – apríl. Kennsla fer fram í einstaklings- og paratímum, einkakennslu í reiðhöll og úti á hringvelli eða skeiðbraut. Á eftirmiðdögum er kennt frá ca. kl. 15-20 og á laugardögum og sunnudögum frá ca. kl. 8-18.

Fyrstu helgina í náminu er gerð ítarleg úttekt á knapa og hesti. Eftir fyrstu helgi setur knapinn upp markmið annarinnar fyrir sig og hest sinn í samráði við reiðkennara.

Síðasta helgin í náminu er haldin í glæsilegri reiðhöll LBHÍ á Mið-Fossum í Borgarfirði þar sem allir þrír hóparnir koma saman og keppa á útivelli skólans. Á laugardeginum eru æfingar með  reiðkennurum, pepp og fyrirlestur og á sunnudeginum er mót. 

Fyrirlestrar í boði

Í náminu er boðið upp á fyrirlestra á Teams með fremstu sérfræðingum á sínu sviði:
– Fyrirlestur með íþróttadómara á vegum Hestadómarafélags Íslands (farið verður yfir löglegan búnað)
– Fyrirlestur um fóðrun keppnishesta og hesta undir miklu álagi
– Fyrirlestur með gæðingadómara á vegum Gæðingadómarafélags LH
– Fyrirlestur með áherslu á  keppnisjárningar
– Fyrirlestur um hugarfar og stemning á mótsdegi

Auk þess verður lesefni aðgengilegt á kennsluvefnum skólans um fóðrun, umhirðu og
undirbúning keppnishesta.

Verklegir tímar

Kennsla mun fara fram í einstaklings- og paratímum auk þess sem þátttakendur fá einkakennslu í reiðhöll og úti á hringvelli eða skeiðbraut. Í verklegum tímum er áhersla lögð á uppbyggingu og þjálfun knapa og hests fyrir keppni með einstaklingsmiðuðum áherslum. Farið verður í að setja upp prógramm sem hentar hverjum og einum, og er farið í yfirferðaþjálfun og skeiðþjálfun þar sem það á við.

Kostnaður við námið

Námið kostar 210.000 kr. Þegar nemandi hefur samþykkt inngöngu í námið ber honum að greiða staðfestingargjald að fjárhæð 100.000 kr. sem er óafturkræft. Staðfestingargjaldið dregst frá heildarverði námskeiðsins. Endurmenntun LBHÍ skiptir eftirstöðvum kr. 110.000 niður á tvo gjalddaga: 1. mars og 1. apríl og er hvor greiðsla kr. 55.000.

Nánari upplýsingar og skráning: https://endurmenntun.lbhi.is/keppnisnam/

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image