https://www.land.is/2018/04/27/landgraedsluverdlaunin-afhent-a-arsfundi-landgraedslunnar/

Ólafur Arnalds hlaut Landgræðsluverðlaunin 2018

Ólafi afhent verðlaunin. Guðmundur Ingi

Ólafur Arnalds hlaut landgræðsluverðlaunin 2018 á ársfundi Landgræðslunar en þau hljóta einstaklingar eða félagasamtök sem unnið hafa að landgræðslu og landbótum. Tilgangur verðlaunana er að vekja athygli á mikilvægu starfi margra áhugamanna að landgræðlsumálum.

Um Ólaf og störf hans segir:

Ólafur Arnalds er doktor í jarðvegsfræðum og prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands. Hann hefur fengist við rannsóknir á íslenskum jarðvegi um áratuga skeið, þar á meðal rannsóknir á eðli jarðvegsrofs og sandfoks, sem er óvíða meira en hér og hefur mótandi áhrif á vistkerfi landsins. Ólafur hefur einnig stundað rannsóknir á landgræðslu, kolefnisbindingu í jarðvegi, vistheimt og ástandi lands. Hann er í fagráði Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna og kennir þar og á alþjóðlegum vettvangi.

Ólafur hefur verið mikilvirkur í ritstörfum og eftir hann liggja innlend og alþjóðleg fræðirit, auk fjölda ritrýndra greina. Hann hefur einnig verið ötull við að miðla fróðleik um íslenskan jarðveg og ástand vistkerfa til almennings, meðal annars með bókinni að Lesa og lækna landið, sem hann ritaði með konu sinni Dr. Ásu L. Aradóttur prófessor við LBHÍ. Þá heldur hann úti vefsíðunni moldin.net og kom á fót gagnagrunninum Nytjaland sem geymir lykilupplýsingar um allar bújarðir á Íslandi.

Á árunum 1991-1997 stýrði Ólafur kortlagningu jarðvegsrofs á Íslandi og gerð fræðslu- og kennsluefnis um sama efni. Fyrir það verkefni hlaut hann Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs árið 1998. Í umsögn Norðurlandaráðs kom fram að verkefnið hafi stuðlað að aukinni þekkingu Íslendinga á jarðvegseyðingu, vakið skilning á því alvarlega ástandi sem ríkir vegna hennar, og kennt þjóðinni að bregðast við á uppbyggilegan hátt. Það hafi einnig orðið grundvöllur fyrir þátttöku Íslendinga í verkefnum Evrópusambandsins og Sameinuðu þjóðanna í baráttunni gegn jarðvegseyðingu. Til kosta verkefnisins var einnig talið að það hafi náð til stórs hóps og boðskapurinn sé þýðingarmikill í nútímanum, bæði á Íslandi og alþjóðlega.

Ólafur hefur verið afar virkur í umræðum um umhverfismál og ekki síst verndun íslenskrar moldar. Hann hefur hvergi dregið af sér í þeirri baráttu. Slíkir baráttumenn eru ekki alltaf allra og hljóta oft á tíðum meiri skammir en þakkir.

Auk Ólafs hlutu Hrunamannahreppur og hjónin Sigrún Snorradóttir og Guðmundur Eiríksson, Starmýri I í Álftafirði, Landgræðsluverðlaunin. Verðlaunagripirnir, Fjöregg Landgræðslunnar, eru unnir af Eik-listiðju, Miðhúsum á Fljótsdalshéraði. 

Sjá frétt Landgræðslunar.

Myndir fengnar af land.is.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image