Elín Ríta Sveinbjörnsdóttir ver meistararitgerð sína Öruggari Hjólaleiðir á höfuðborgarsvæðinu í skipulagsfræðum.

Öruggari hjólaleiðir á höfuðborgarsvæðinu. Notkun stofnstíga hjólreiða og flokkun þeirra.

Öruggari hjólaleiðir á höfuðborgarsvæðinu. Notkun stofnstíga hjólreiða og flokkun þeirra er heiti meistararitgerðar Elínar Rítu Sveinbjörnsdóttur.

Elín Ríta Sveinbjörnsdóttir ver meistararitgerð sína í skipulagsfræði við Auðlinda- og umhverfisdeild Landbúnaðarháskóla Íslands sem nefnist ÖRUGGARI HJÓLALEIÐIR Á HÖFUÐBORGARSVÆÐINU. Notkun stofnstíga hjólreiða og flokkun þeirra.

Meistaranámsnefndin er skipuð af dr. Bjarka Jóhannessyni lektor við meistaranám í skipulagsfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands og Guðbjörgu Lilju Erlendsdóttir MSc verkfræðingi á skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, Reykjavíkurborg. Prófdómari er Katrín Halldórsdóttir verkfræðingur MSc við Umferðardeild Vegagerðarinnar.

Athöfnin fer fram 29. maí 2019 í salnum Sauðafell á 3. hæð í Landbúnaðarháskóla Íslands á Keldnaholti, Reykjavík og hefst kl. 14:00. Allir velkomnir!

Markmið verkefnisins er að gera úttekt á notkun stofnstíga hjólreiða á höfuðborgarasvæðinu og greina fjölda og hraða hjólandi vegfarenda á stígunum.
Hjólreiðar hafa aukist til muna hérlendis á undanförnum árum, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu og er sú þróun jákvæð enda um umhverfislegan og heilsusamlegan ferðamáta að ræða. Reiðhjól eru ekki aðeins notuð sem ferðamáti heldur einnig til útivistar og hreyfingar og eru stígarnir því notaðir sem samgöngustígar, útivistarsígar og æfingabrautir. Skilgreindar hafa verið lykilleiðir hjólreiða á höfuðborgarsvæðinu sem hafa það markmið að fjölga hjólreiðafólki og bæta þjónustu við hjólreiðafólk. Lykilleiðirnar tengja saman sveitarfélög og hverfi og gera stofnstígakerfið að raunverulegum valkosti sem samgöngumáta svo að hægt sé að hjóla allan ársins hring. Lykilleiðirnar eru ýmist hjólastígar eða sameiginlegir stígar án aðskilnaðar frá gangandi umferð. Á sameiginlegum stígum þar sem breiður hópur fólks og stundum ferfætlingar koma saman getur skapast hætta fyrir vegfarendur þegar hraðamunur er mikill. En hver er fjöldi hjólreiðamanna á stofnstígakerfinu og hver er raun hraði á hjólreiðamönnum? Er fjöldi og hraði hjólreiðamanna orðinn það mikill að tímabært sé að flokka hjólreiðastíga niður eftir notkun?

Úttekt var gerð á stofnstígakerfinu og fjöldi og hraði hjólreiðamanna greindur. 
Talningar ásamt hraðamælingum úr níu teljurum á höfuðborgarsvæðinu voru skoðuð og teknar saman niðurstöður á fjölda hjólreiðamanna á dag, hverri klukkustund ásamt dreifingu hjólreiðamanna yfir sólarhringinn. Niðurstöðurnar sýna að mikill munur er á fjölda og hraða hjólreiðamanna eftir staðsetningu. Flestir hjóluðu fram hjá teljaranum við Nauthólsvík eða um 800 hjólreiðamenn á virkum degi í september. 

Áberandi var hærra hlutfall í fjölda hjólreiðamanna á virkum dögum en um helgar, ásamt því var umferð árdegis og síðdegis afgerandi í sólarhringsumferðinni. Draga má þá ályktun að stígarnir eru mikið notaðir sem samgöngustígar.

Hraðast fara hjólreiðamenn við Nauthólsvík og Geirsnef þar sem 80% hjólreiðamanna hjóla yfir 25 km/klst hraða. Hjólað er á öllum stöðunum hraðar á virkum dögum en um helgar og lítill hraðamunur er á hjólreiðamönnum í september og yfir vetrarmánuðina á flest öllum talningastöðunum. Útfærsla stíganna var kortlögð og var yfir 70% af stofnstígakerfinu sameiginlegir stígar þar sem hjólreiðamenn deila stíg með gangandi vegfarendum. Hjólreiðamönnum ber að víkja fyrir gangandi vegfarendum á göngustígum samkvæmt umferðarlögum.

Samkvæmt leiðbeiningum hjólreiða á stofnleið ekki að vera sameiginlegur stígur með gangandi vegfarendum. Yfir 70% af stofnleiðum hjólreiða uppfylla því ekki kröfur leiðbeininganna eða um 90 km af stofnstígakerfinu.

Samgöngur eru helsta ástæða aukningar á losun gróðurhúsalofttegunda síðan 2013 sem er á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda.
Ferðavenjur íbúa á höfuðborgarsvæðinu ásamt talningum frá Reykjavíkurborg sýna aukningu í hlutfalli hjólreiða síðastliðin ár og eru töluverð sóknarfæri fyrir hendi til að auka hjólreiðar enn frekar. Eitt af lykilatriðum í að gera hjólreiðar að raunverulegum valkosti í ferðamáta liggur hjá sveitarfélögunum, að setja skýrar inn í aðalskipulög sín skilgreiningu á stofnstígum hjólreiða. Þannig er hægt að vinna markvist að uppbyggingu hjólreiða á höfuðborgarsvæðinu. 

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image