Nýtt rit LbhÍ: Áhrif fóðrunar á efnainnihald mjólkur með sérstaka áherslu á fitu

Út er komið fjölrit LbhÍ nr. 77:  Áhrif fóðrunar á efnainnihald mjólkur með sérstaka áherslu á fitu.

Verkefnið hafði þann tilgang að skilgreina helstu þætti í fóðrun mjólkurkúa sem áhrif hafa á efnahlutföll í mjólk, með sérstakri áherslu á fituhlutfallið. Sú skýrsla um verkefnið er hér gefur að líta er tvíþætt; annars vegar nokkuð ítarlegur kafli um fyrri rannsóknir en þar á eftir er sagt frá tilraun sem gerð var á tilraunabúinu á Stóra-Ármóti fyrri hluta árs 2016. Tilraunin var sett upp með það fyrir augum að prófa á íslenskum gróffóðurgrunni fituviðbót í kjarnfóðri með tvennum hætti, annars vegar í gegnum kjarnfóðurblöndu og hins vegar með beinni íblöndun þurrfitu í heilfóður.

Tilraunin heppnaðist vel og skilar niðurstöðum sem svara rannsóknaspurningunum, sem voru um það hvort umræddar tilraunameðferðir hefðu áhrif á át, nyt og efnahlutföll mjólkur. Fituviðbót í fóðri, hvort sem er úr þurrfitu eða kjarnfóðurblöndu, leiddi til breytingar á efnainnihaldi mjólkurinnar, þannig að fituhlutfall mjólkurinnar hækkaði og próteinhlutfallið lækkaði. Breyting um 5% á fitu/prótein hlutfalli mjólkurinnar eins og kom fram í þessu verkefni, er umtalsverð og ætti að vera þýðingarmikið fyrir bændur og mjólkuriðnaðinn að vita af þessum möguleika til að stilla af jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á þessum tveimur verðefnum mjólkurinnar.

Höfundar eru Hrafnhildur Baldursdóttir og Jóhannes Sveinbjörnsson.

Styttri greinargerð um verkefnið er einnig birt í nýútkomnu Bændablaði (23. mars 2017, bls. 52-53).

Verkefnið var fjármagnað af Framleiðnisjóði landbúnaðarins (þróunarfé nautgriparæktar), Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði, Búnaðarsambandi Suðurlands og Landbúnaðarháskóla Íslands.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image