Nýr Framkvæmdastjóri Gleipnis – nýsköpunar- og þróunarseturs á Vesturlandi

Bjargey Anna Guðbrandsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastýra Gleipnis – nýsköpunar- og þróunarseturs á Vesturlandi.

Bjargey hefur viðamikla reynslu af verkefnastjórnun, viðburðarstjórnun og þverfaglegu starfi. Síðastliðin ár hefur hún haldið utan um alþjóðlegt framhaldsnám í umhverfis- og auðlindafræði og skipulagt fjölda viðburða við Háskóla Íslands en starfaði áður hjá ORF Líftækni. Bjargey er með BS gráðu í líffræði og meistaragráðu í stjórnun og stefnumótun. Hún er uppalin á Staðarhrauni á Mýrum.

„Ég hlakka afskaplega til að hefja störf og taka þátt í að byggja upp nýtt nýsköpunar- og þróunarsetur á Vesturlandi og vinna að nýsköpun og sjálfbærni í mínum heimahögum. Ég hlakka ekki síst til að kynnast betur háskólunum í Borgarfirði, tengja saman fjölbreytt samstarfsfólk og efla það nýsköpunarstarf sem þegar er til staðar. Ég kynntist því hversu gefandi það er að vinna að verkefnum sem hafa bein áhrif á samfélagið með því að leiða skipulag fyrstu Hinseginhátíðar Vesturlands á síðasta ári og er afar spennt fyrir að halda því áfram á nýjum vettvangi“ segir Bjargey Anna Guðbrandsdóttir

Gleipnir – nýsköpunar- og þróunarsetur er sjálfseignarstofnun sem var stofnuð í maí á þessu ári. Stofnaðilar eru Landbúnaðarháskóli Íslands, Háskólinn á Bifröst, Landsvirkjun, Borgarbyggð, Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, Háskóli Íslands, Íslandsstofa, Orkustofnun, Breið-Þróunarfélag, Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, Símenntunarmiðstöð Vesturlands, Hugheimar – frumkvöðla- og nýsköpunarsetur og Auðna tæknitorg.

Markmiðið með stofnun Gleipnis er að skapa umhverfi fyrir samvinnu, þróun og miðlun ólíkrar þekkingar á sviði rannsókna, nýsköpunar og sjálfbærni með það að leiðarljósi að styrkja samkeppnisstöðu íslensks samfélags, efla atvinnu og byggðaþróun og auka lífsgæði í landinu.

Stjórn Gleipnis fagnar að formlegu samstarfi háskólanna á Vesturlandi, Háskólans á Bifröst og Landbúnaðarháskóla Íslands hefur verið komið á fót. Stjórnin hefur unnið að undirbúningi samstarfsvettvangsins undanfarin misseri og það er gleðiefni að fá nú öflugan framkvæmdastjóra til að taka með okkur og leiða næstu skref. Stjórn Gleipnis hefur hug á því að vinna verkefni sem styður við áform stjórnvalda um að efla landbúnað og matvælaframleiðslu hérlendis og tekur mið af langtímaáætlun með aðgerðaáætlun, skýrum vörðum og markmiðum og verður það eitt af forgangsverkefnunum í upphafi,“ segir Ragnheiður I. Þórarinsdóttir stjórnarformaður Gleipnis.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image