Nýr fjármeistari og aðstoðarmaður í rannsóknum hjá Hvanneyrarbúinu

Sú breyting varð frá og með áramótum að Hvanneyrarbúið ehf sér um allan búrekstur Landbúnaðarháskólans. Þannig færðist Sauðfjárræktarbúið á Hesti undir starfsemi Hvanneyrarbúsins. 

Hvanneyrarbúið ehf er félag sem er alfarið í eigu LbhÍ og hlutverk þess er búrekstur á hagkvæman hátt með áherslu á að þjónusta kennslu og rannsóknir fyrir LbhÍ og aðra aðila. Samhliða þessum breytingum var fjölgað í stjórn búsins og tóku þau sæti í stjórn Oddný Steina Valsdóttir og Eyþór Einarsson. Stjórn Hvanneyrarbúsins skipa þau, Ragnheiður I. Þórarinsdóttir rektor LbhÍ og stjórnarformaður, Baldur Helgi Benjamínsson, Pétur Diðriksson, Oddný Steina Valsdóttir og Eyþór Einarsson.

Alls eru fjórir fastráðnir starfsmenn eru á Hvanneyrarbúinu, þau Egill Gunnarsson bústjóri, Björn Ingi Ólafsson fjósameistari og tveir nýjir starfsmenn þau Heiðar Árni Baldursson fjármeistari og Vildís Þrá Jónsdóttir bústarfsmaður og aðstoðarmaður rannsókna og kennslu. Á Hesti eru um 620 fjár á vetrarfóðrum en á Hvanneyri eru um 65 mjólkandi kýr auk uppeldis eða um 150 lifandi nautgripir. Til búrekstursins eru undir jarðirnar Hvanneyri, Hestur, Mið-Fossar, Kvígsstaðir og Mávahlíð. 

Heiðar Árni í fjárhúsunum að Hesti.

 

Heiðar Árni Baldursson hefur verið ráðinn sem fjármeistari á fjárbúinu Hesti

Heiðar mun hafa umsjón með ræktunarstefnu, hjarðskýrsluhaldi, aðbúnaði búfjár, vélavinnu og sauðburði á fjárbúinu. Þá mun hann mun einnig taka þátt í rannsóknum, kennslu og innleiðingu nýsköpunar í búrekstri. Heiðar Árni hóf störf í lok síðast árs. Heiðar er menntaður búfræðingur frá LbhÍ og húsasmiður ásamt því að hafa þjálfað og tamið hross í hlutastarfi sem og fullri vinnu frá unga aldri, unnið við smíðar, girðingarvinnu og vélaverktöku auk starfa við sauðburð og smalamennsku í gegnum tíðina.

„Ég er mjög spenntur fyrir starfi fjármeistara á Hesti, hér er mikil saga og framlag til íslenska fjárstofnsins mikið sem spennandi verður að leiða áfram í samstarfi við bústjóra, nemendur og annað starfsfólk Landbúnaðarháskólans.“ Segir Heiðar um nýja starfið. 

 

 

Vildís Þrá að störfum í fjósinu á Hvanneyri

 

Vildís Þrá Jónsdóttir aðstoðarmaður rannsókna á Hesti og Hvanneyri

Vildís hóf störf hjá Hvanneyrarbúinu um áramót og mun aðstoða við rannsóknir bæði á Hesti og á Hvanneyri auk þess að starfa við gegningar í fjósi og önnur bústörf á búunum. Vildís hefur starfað við tamningar, þjálfun og umhirðu hrossa sem og við önnur almenn búverk á blönduðu búi. Þá hefur hún unnið við þjónustustörf t.d. í veiðihúsinu Hítará og sem leiðsögumaður í hestaferðum um Löngufjörur. Vildís lauk BS í búvísindum frá LbhÍ árið 2024 og búfræði 2020.
 

„Nýja vinnan leggst vel í mig, auðvitað er margt nýtt sem þarf að læra en vonandi kemur það allt hratt og örugglega á næstu vikum. Mín helstu verk hingað til hafa verið þessi almennu fjósverk og að aðstoða við þau verk sem hefur þurft meiri mannskap á Hesti. Annað sem ég hef verið að brasa í fjósinu er að sinna verkum sem hafa þurft að sitja á hakanum vegna anna hjá öðrum starfsmönnum.“ 

 

Við bjóðum Heiðar og Vildísi innilega velkomin til starfa!

 

 

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image