Egill Gunnarsson er nýr bústjóri Hvanneyrarstaðar. Egill er 27 ára og kemur frá Egilstöðum í Fljótsdal. Hann hefur hvort tveggja lokið BS próf í búvísindum sem og búfræðiprófi frá Landbúnaðarháskólanum og ætti að vera kunnugur staðnum og staðháttum. Eftir brautskráningu árið 2012 hélt hann aftur austur og kenndi raun- og náttúrufræðigreinar í Menntaskólanum á Egilsstöðum. Honum bauðst þá starf sem söluráðgjafi hjá Líflandi og þá fyrst og fremst við ráðgjöf á fóðrun og jarðrækt.
„Mér líkaði mjög vel hjá Líflandi. Ég fékk að ferðast um landið og kynntist mörgum bændum. Það var svo í maí að ég fékk símtal þar sem mér var boðið að taka við starfi bústjóra á Hvanneyrarstað.“
Ákveðnar breytingar voru gerðar á rekstrarfyrirkomulag félagsins sem áður sá um búrekstur á staðnum og með nýju félagi kom nýtt fólk.
„Ég fór í viðtal á Hvanneyri og leist ágætlega á þetta. Eftir stuttan umhugsunarfrest ákvað ég að taka starfið og byrjaði rúmum mánuði síðar sem bústjóri. Ég var ekki sá eini sem var ráðinn því Hafþór Finnbogason var ráðinn inn sem fjósameistari. Ég þekkti Hafþór frá fyrri tíð úr búvísindanáminu og er ánægður með að vinna með honum því hann er áreiðanlegur og fær í sínu starfi. Samstarfið gengur mjög vel, enda mikið samráð á milli okkar með ákvarðanatökur í búrekstrinum. Í sumar hefur svo Jóhannes Kristjánsson, búfæðikennari, unnið með okkur, það samstarf gekk einnig vel."
Hafþór Finnbogason, Egill Gunnarsson og Jóhannes Kristjánsson.
Rekstur gamla félagsins hafði ekki gengið sem skildi og nauðsynlegt var að fara í breytingar. Landbúnaðarháskólinn hefur um árabil staðið fyrir umfangsmiklum búrekstri á Hvanneyri og Hesti í Borgarfirði. Ákveðið var að skipta rekstrinum upp þannig að fjósið er rekið sér og auglýst var eftir rekstraraðilum á sauðfjárbúið Hest. Þar hafa nú tekið við ungt par, þau Helgi Elí Hálfdánarson og Snædís Anna Þórhallsdóttir sem einnig voru á svipuðum tíma og Egill í náminu við LbhÍ. Agli líður vel með að vera komin aftur á Hvanneyri.
„Hér líður mér vel og á margar góðar minningar héðan úr náminu. Ég er það heppinn að nokkrir krakkar sem ég var með í náminu eru nú komin aftur hingað á Hvanneyri, þannig að ég er núna að vinna með fólki í skólanum sem ég sat áður með í tíma.“
Fjósið á Hvanneyri er byggt árið 2004 og í því er lausaganga og mjaltaþjónn. Í fjósinu er 61 mjólkandi kýr en í heildina eru 162 nautgripir í húsi.
„Fjósið er byggt sem kennslu- og rannsóknarfjós og aðstaðan á að vera til fyrirmyndar fyrir nemendur skólans og ekki síður fyrir gripina. Bændum, nemendum og öðrum stendur til boða að koma og kynna sér fjósið og það sem við erum að brasa í búrekstrinum. Í fjósinu á velferð og umgengni að vera til fyrirmyndar. Við verðum með skipulagðar gagnasafnanir á ýmsum breytum í búrekstrinum sem nemar og akademískir starfsmenn við skólann geta nýtt sér í verkefnum sínum.
Starfsmenn Hvanneyrarbúsins sjá ekki bara um fjósið því þeir sjá einnig um heyskapinn á jörðinni.
“Heyskapur hefur gengið vonum framar í sumar. Við náðum öllu á góðum tíma og verkunin verður að öllum líkindum mjög góð. Ég efast ekki um fóðurgildið en það vantar töluvert upp á magnið ennþá. Ef það koma nokkrir heitir og rakir dagar í ágúst fáum við mikið í seinni slætti."
Hvanneyrarbúið er komið með Facebook síðu og þar verður helstu tíðindum og fréttum úr fjósinu gerð góð skil. Áhugasamir eru hvattir til að skoða.
Öflugasti vinnumaður fjóssins er ugglaust kötturinn Rjómi sem er á vaktina allan sólarhringinn og hefur gert frá byrjun. A.m.k. á milli lúra.