Greinin er svokölluð „review article“ og nefnist „Icelandic Inland Wetlands: Characteristics and Extent of Draining“ og birtist hún í vísindaritinu Wetlands sem er rit alþjóðfélags votlendisfræðinga (Society of Wetland Scientists) og gefið út af Springer. Höfundar eru Ólafur Arnalds, Jón Guðmundsson, Hlynur Óskarsson, Sigmundur Brink og Fanney Gísladóttir.
Greinin er afrakstur gagnasöfnunar starfsmanna LbhÍ til langs tíma, en í henni er fjallað um eðli votlendanna, útbreiðslu og að hve miklu leyti þau eru röskuð vegna framræslu. Votlendi eru þýðingarmikil vistkerfi, sem stuðla að jöfnun vatnsbúskapar og þeim fylgja yfirleitt mjög fjölbreytt og frjósöm búsvæði. Framræsla votlenda eru meðal alvarlegri umhverfisvandamála í heiminum. Votlendi safna miklu magni kolefnis sem tekur að losna séu þau þurrkuð upp, sem leiðir til gríðarlegrar losunar gróðurhúsalofttegunda. Á Íslandi er þessi losun að sömu stærðargráðu og öll önnur losun af völdum manna. Íslensk votlendi eru um 9000 km2 samkvæmt þessari úttekt, sem nýtir mun nákvæmari gagnagrunna en áður hafa verið lagðir til grundvallar. Um 70% votlenda á láglendi Íslands hafa verið þurrkuð upp, en um 47% miðað við landið í heild, með um 30.000 km af skurðum. Íslensk votlendi eru mjög frjósöm og einkennast af miklum fjölbreytileika í landslagi og miklum fjölda smárra landslagseininga.