Mælingar á rennsli og magni uppleysts kolefnis sem berst út úr skóginum á Sandlækjarmýri. Ljósm. BDS
Sjálfvirk mælitæki á losun koldíoxíðs frá jarðvegi í skóginum á Sandlækjarmýri. Ljósm. BDS
Mynd úr greininni sem sýnir helstu flæði gróðurhúsalofttegunda í skógi á framræstu landi. Örvarnar táka hvort um bindingu er að ræða (niður) eða losun (upp).
Tveir starfsmenn Landbúnaðarháskóla Íslands, þeir próf. Bjarni Diðrik Sigurðsson og dr. Hlynur Óskarsson, ásamt dr. Brynhildi Bjarnadóttur við Háskólann á Akureyri og teymi vísindafólks frá Norðurlöndunum, birtu nýverið yfirlitsgrein í tímaritinu Biogeosciences þar sem fjallað er um fyrirliggjandi rannsóknir á hvaða áhrif skógrækt á framræstu mýrlendi hefur á losun og binding gróðurhúsalofttegundanna koldíoxíðs (CO2), metans (CH4) og nituroxíðs (N2O).
Greinin gefur yfirlit yfir öll þau ferli sem hafa þarf að hafa í huga þegar loftslagsáhrif aðgerða eins og skógræktar eru metin á framræstu mýrlendi og jafnframt um mismunandi rannsóknaaðferðir sem hægt er að beita við slíkt mat. Jafnframt er gefið yfirlit um stöðu þekkingar á mismunandi þáttum á Norðurlöndum og nálægum svæðum.
Mælingar á öllum þeim mismunandi þáttum sem vega inn í loftslagsáhrif skógræktar á framræstu landi eru bæði kostnaðarsamar og vinnufrekar og verður aldrei fýsilegt að slíkar mælingar verði gerðar á öllum þeim framræstu svæðum sem skógrækt verður beitt til að minnka neikvæð loftslagsáhrif framræslunnar. Því er mikilvægt að þróa betur svokallaða bindi- eða losunarstuðla (e. Emission Factors) sem notaðir eru til að meta loftslagsáhrif landnýtingar, t.d. vegna Loftslagssamnings S.þ.
Niðurstaða greinarinnar er sú að ennþá séu bindistuðlarnir sem notaðir eru við kolefnisbókhald ríkjanna talsverðri óvissu háðir. Mikilvægt er að samhæfa betur aðferðafræði við ólíkar rannsóknir og hvaða aðrir vistkerfisþættir eru gefnir upp með niðurstöðunum, svo að auðveldara sé að bera þær saman þegar stuðlarnir eru bættir.
Greinin bendir sérstaklega á eftirfarandi þætti sem þarf að bæta er til dæmis:
- Skortur á bakgrunnsupplýsingum (umhverfis- og vistkerfisþættir) um vistkerfin sem rannsökuð eru hindrar það að hægt sé að útbúa bindistuðla sem taka tillit til ólíkra umhverfisaðstæðna, en eru ekki bara einföld meðaltöl fyrir stór svæði (svokallaðir Tier 1 stuðlar).
- Þegar handvirkar mæliaðferðir eru notaðar til að mæla bindingu og losun gróðurhúsalofttegunda er mikilvægt að tengja þær síritandi mælingum á t.d. jarðvegshita eða stöðu grunnvatns þegar þær eru skalaðar upp í ársgildi.
- Mikil þörf er á meiri vetrarmælingum á losun allra gróðurhúsalofttegundanna.
- Það skortir mjög á að grunnvatnsstaða í framræstu landi hafi verið skráð þegar mælingar á losun eða bindingu gróðurhúsalofttegunda fara fram. Grunnvatnsstaðan er hinsvegar oft mikilvægasti þátturinn í hver heildaráhrifin eru.
- Mikilvægt er að taka tillit til framvindu ræktaðra skóga þegar loftslagsáhrif skógræktar á framræstu landi eru metin; þ.e. að taka tillit til allrar vaxtarlotunnar. Áhrifin geta breyst með aldri skóganna.