Nýverið birtist greinin „Spotted phenotypes in horses lost attractiveness in the Middle Ages“ í tímaritinu Scientific Reports. Umfjöllunarefnið er fornDNA greining á 107 sýnum úr hestabeinum þar sem greindur var erfðabreytileiki tengdur litum. Elstu sýnin sem greind voru eru frá um 15.000 f. Kr. en þau yngstu frá 13. öld. Frá Íslandi voru 21 sýni úr 19 einstaklingum greind en öll komu þau úr hestabeinum sem fundust í kumlum frá víkingaöld.
Athyglisvert er að í engu af íslensku sýnunum voru genasamsætur fyrir skjótt (e. tobiano), yrjuskjótt (sabino), og „hlébarða“ (e. leopard) svipgerðir (sem kallast saman spotted á ensku) þó að sá eiginleiki sé vel þekktur í íslenska stofninum í dag. Á þessu eru nokkrar mögulegar skýringar. Fyrst þarf að hafa í huga að fjöldi einstaklinga sem sýni voru tekin úr fyrir þessa rannsókn var takmarkaður. Einnig getur verið að einungis heillitir hestar hafi verið lagðir í kuml á víkingaöld á Íslandi og þá er líka mögulegt að skjóttar og yrjóttar svipgerðir hafi komið til landsins við innflutning á lifandi hrossum eftir landnám. Frekari rannsóknir munu væntanlega skýra þetta betur.
Tveir af íslensku hestunum höfðu genasamsætuna fyrir vindótt (e. silver dapple) sem er vel þekkt í íslenska hestinum í dag. Íslensku víkingaaldarhestarnir sem skoðaðir voru í þessari rannsókn voru flestir rauðir (e. chestnut), nokkrir voru jarpir (e. bay) og einhverjir brúnir (e. black).
Hægt er að nálgast greinina á síðu Scientific Reports http://www.nature.com/articles/srep38548
Höfundar eru Saskia Wutke, Norbert Benecke, Edson Sandoval-Castellanos, Hans-Jürgen Döhle, Susanne Friederich, Javier Gonzalez, Jón Hallsteinn Hallsson, Michael Hofreiter, Lembi Lõugas, Ola Magnell, Arturo Morales-Muniz, Ludovic Orlando, Albína Hulda Pálsdóttir, Monika Reissmann, Matej Ruttkay, Alexandra Trinks og Arne Ludwig. Tveir höfundanna, Jón Hallsteinn Hallsson og Albína Hulda Pálsdóttir, eru starfsmenn Landbúnaðarháskóla Íslands.
Texti: Albína Hulda Pálsdóttir og Jón Hallsteinn Hallsson
Mynd: Hestabein úr kumli varðveitt á Þjóðminjasafni Íslands. Jón Hallsteinn Hallsson.