Nýlega kom út grein í tímaritinu Land Degradation & Development sem ber heitið The sheep in wolf‘s clothing? Recognizing threats for land degradation in Iceland using state‐and‐transition models. Aðalhöfundur greinarinnar er Isabel C. Barrio, verkefnastjóri hjá Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna.
Úrdráttur úr grein:
Sjálfbær landnýting krefst góðrar þekkingar á starfsemi vistkerfa og þeim þáttum sem knýja virkni þeirra. Sem dæmi má nefna að víða á Íslandi hefur orðið umfangsmikil gróður- og jarðvegseyðing sem afleiðing af samþættum áhrifum náttúrlegra ferla, á borð við loftslag og eldvirkni, auk áhrifa mannsins frá landnámi með skógarhöggi og búfjárbeit. Það er lykilatriði fyrir árangursríka landnýtingu að greina þá þætti sem leiða til vistkerfisbreytinga, einkum í ljósi þess að við eigum miserfitt með að hafa áhrif á þessa þætti.
Hugmyndafræðileg líkön eru oft gagnleg við að greina þá þekkingu sem er til staðar um viðkomandi vistkerfi og það hvaða þættir valda breytingum á kerfunum. Í rannsókn okkar notuðum við svonefnd ástands-og-tilfærslu líkön (state-and-transition) til að lýsa vistkerfisbreytingum á Íslandi á þremur tímaskeiðum sem einkennast af mismiklum áhrifum mannsins, allt frá tímabilinu fyrir landnám og fram á okkar daga. Líkönin sýna möguleg vistkerfi, ástand, tilfærslur og þröskulda þeirra á milli og breytingar á þeim. Niðurstöður okkar benda til þess að líkönin verði flóknari eftir því sem áhrif mannsins aukast. Við notuðum dæmi frá miðhálendi Íslands til að sýna hvernig beita má líkönunum til að spá fyrir um áhrif mismunandi landnotkunar. Þessi nálgun getur reynst gagnleg til að greina hvar okkur skortir frekari þekkingu með því að greina raunhæf markmið fyrir verndun og endurheimt. Þessi líkön geta einnig styrkt sjálfbæra landnýtingu og hjálpað til að átta sig á mikilvægum áhersluþáttum landvöktunarverkefna.